is / en / dk

26. Nóvember 2018

Kennarafélag Menntaskólans við Hamrahlíð mótmælir harðlega hugmyndum um eitt leyfisbréf fyrir kennara óháð skólastigum. Þetta kemur fram í áskorun félagsins og krefst það þess að fagleg sérhæfing verði virt og að tryggt verði að nemendur hljóti alltaf bestu mögulega menntun.

Áskorun Kennarafélags Menntaskólans við Hamrahlíð til mennta- og menningarmálaráðherra.

Kennarafélag Menntaskólans við Hamrahlíð mótmælir harðlega hugmyndum um eitt leyfisbréf fyrir kennara óháð skólastigum. Leikskólar, grunnskólar og framhaldsskólar eiga það sameiginlegt að þar fer fram menntun. Hún er hins vegar með afar ólíku sniði og krefst sérþekkingar á hverju stigi fyrir sig. 
Kennarafélag MH krefst þess að fagleg sérhæfing verði virt. Tryggja skal að nemendur hljóti alltaf bestu mögulega menntun. Viðurkenna þarf að kennsla á öllum skólastigum krefst sérfræðiþekkingar. Eitt leyfisbréf fyrir öll skólastig er aðför að fagþekkingu og sérhæfingu. Hætta er á að það leiði af sér faglega hnignun. 
Eitt leyfisbréf fyrir öll skólastig mun ekki bæta kennaraskort. Gríðarleg vinna var lögð í samningu laga nr. 87 frá 2008 um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Bent skal á að 21. grein þeirra opnar á möguleika til að nýta krafta kennara á samhliða skólastigum ef skortur er á kennurum. Augljósa lausnin á kennaraskorti er hins vegar að bæta kaup þeirra og kjör. 
Kennarafélag MH skorar á mennta- og menningarmálaráðherra að hætta við hugmyndir um eitt leyfisbréf kennara fyrir öll skólastig.  

Menntaskólanum við Hamrahlíð, 23. nóvember 2018, 
Guðlaug Guðmundsdóttir formaður KFMH 

Áður hafði Félag kennara við Menntaskólann í Reykjavík ályktað um málið.


 

Tengt efni