is / en / dk

03. Desember 2018

Jafnréttisnefnd Kennarasasambands Íslands hefur sent frá sér ályktun vegna „Klausturmálsins“ svokallaða. Í ályktuninni segir að mikilvægt sé að uppræta alla hatursfulla orðræðu „sem og þá sem var viðhöfð í margumræddu hófi þannig að hún verði aldrei viðurkennd,“ eins og segir orðrétt. Jafnréttisnefnd KÍ hvetur til fræðslu um jafnréttismál á Alþingi og einnig er lögð áhersla á að nemendur á öllum skólastigum fái kennslu í jafnréttis- og kynjafræðum. 

Ályktun jafnréttisnefndar KÍ hljóðar svo: 

„Vegna frétta af ógeðfelldu orðbragði nokkurra þjóðkjörinna einstaklinga vill jafnréttisnefnd Kennarasambands Íslands koma eftirfarandi á framfæri:

Jafnréttisnefnd KÍ tekur undir og hvetur til þess að fræðsla um jafnréttismál verði hluti af fræðslu Alþingisfólks. Ennfremur leggur hún áherslu á mikilvægi þess að jafnréttis- og kynjafræðsla verði kennd og jafnréttissjónarmið höfð að leiðarljósi á öllum skólastigum. Mikilvægt er að uppræta alla hatursfulla orðræðu sem og þá sem viðhöfð var í margumræddu hófi þannig að hún verði aldrei viðurkennd og útskýra skaðsemi hennar. Höfum hugfast að áheyrendur frétta eru líka á barnsaldri og fyrir þeim má hugarfar og tungutak sem þetta aldrei verða eðlilegt.“

Jafnréttisnefnd KÍ, 3. desember 2018
 

Tengt efni