is / en / dk

04. Desember 2018

Kennarafélög Kvennaskólans og Fjölbrautaskólans í Garðabæ mótmæla harðlega hugmyndum um að gefið verði út leyfisbréf til kennara óháð skólastigum. Í ályktun Kennarafélags FG kemur fram að stjórnvöld og yfirvöld menntamála þurfi miklu frekar að horfa til annarra þátta í menntakerfi landsins, með það að markmiði að bæta menntun á Íslandi. Kennarafélag Kvennaskólans segir að með hugmyndunum um eitt leyfisbréf sé vegið að sérþekkingu kennara og sérhæfingu á hverju skólastigi. Auk þess eru hagsmunir nemenda ekki hafðir að leiðarljósi. Kennarafélagið mælist til þess að efni kennaramenntunarlaga um heimild kennara til að kenna í samræmi við menntun sína á aðliggjandi skólastigi komist í framkvæmd.

Ályktun Kennarafélags Fjölbrautaskólans í Garðabæ
Stjórn og félagar Kennarafélags Fjölbrautaskólans í Garðabæ mótmæla hugmyndum sem komið hafa fram um eitt leyfi fyrir alla kennara á leik, grunn- og framhaldsskólastigi. Einnig tökum við heilshugar undir þær yfirlýsingar sem komið hafa fram um málið. 
Við álítum að stjórnvöld og yfirvöld menntamála þurfi miklu frekar að horfa til annarra þátta í menntakerfi landsins, með það að markmiði að bæta menntun á Íslandi. Þá teljum við mikilvægt að fara í aðgerðir sem auka veg og virðingu kennarastarfsins hér á landi. 
Eitt sameiginlegt leyfisbréf leysir því ekki vanda menntakerfisins á Íslandi og telur félagið að þetta muni draga úr vægi og rýra sérþekkingu og sérhæfingu hvers skólastigs. 
Nýlega var nám til stúdentsprófs stytt um eitt ár og við það tapaðist ákveðin breidd í námi. Því miður. Framhaldsskólakennarar og nemendur hafa verið að aðlaga sig að þeim breytingum og sýnt mikinn sveigjanleika í því. Það er mikilvægt að kennarar fái svigrúm til þess að gera sem best úr þeirri breytingu. Nýtt og frekara umrót er því ónauðsynlegt að okkar mati. 

Fyrir hönd Kennarafélags FG, 
Gunnar Hólmsteinn Ársælsson, formaður. 

 

Ályktun kennarafélags Kvennaskólans

Kennarafélag Kvennaskólans í Reykjavík, Krákan, mótmælir harðlega hugmyndum um að gefið verði út eitt leyfisbréf til kennara óháð skólastigum. Í kennaranámi eru ólíkar áherslur fyrir hvert skólastig enda þarfir nemenda hvers stigs mismunandi. Því verða leyfisbréf að miðast við markmið hvers skólastigs fyrir sig. Með hugmyndunum um eitt leyfisbréf er vegið að sérþekkingu kennara og sérhæfingu á hverju skólastigi. Auk þess eru hagsmunir nemenda ekki hafðir að leiðarljósi. Kennarafélagið mælist til þess að efni kennaramenntunarlaga um heimild kennara til að kenna í samræmi við menntun sína á aðliggjandi skólastigi komist í framkvæmd.
Kennarafélag Kvennaskólans lýsir hér með yfir fullum stuðningi við ályktun félagsfundar FF sem haldinn var 19. nóvember síðastliðinn þar sem hugmyndum um eitt leyfisbréf var mótmælt. Kennarafélagið sendir stjórn FF stuðnings- og baráttukveðjur í þeirri vinnu sem framundan er og þetta mál varðar.

 

Tengt efni