is / en / dk

02. Janúar 2019

Stórauka þarf aðsókn í kennaranám og kynnti menntamálaráðherra tillögur þar að lútandi í ríkisstjórn fyrir jólin. Vonir standa til að stjórnvöld geti kynnt úrbætur á þessu ári og hrint þeim í framkvæmd. Helstu tillögur eru að starfsnám á vettvangi verði launað, leiðsögn nýliða verði efld á öllum skólastigum og að útskrifuðum kennurum með sérhæfingu í starfstengdri leiðsögn verði fjölgað. 

Þessar tillögur og fleiri eru mikilvæg skref til að efla starfsumhverfi kennara en ráðherra bendir einnig á í grein í Morgunblaðinu í dag, 2. janúar, að brýnt sé að þjóðarsátt verði um starfskjör kennara og skólastjórnenda. Það sé forsenda þess að Ísland verði með framúrskarandi menntakerfi, segir ráðherra. 

Á þingi KÍ vorið 2018 kom fram í máli ráðherra að stefna stjórnvalda væri að efla menntun í landinu, stuðla að viðurkenningu á störfum kennara, leggja áherslu á skólaþróun á öllum skólastigum og efla nýliðun kennara í samstarfi ríkis, sveitarfélaga og stéttarfélaga. 

 

Grein um þetta efni birtist í Morgunblaðinu 2. janúar 2019 undir yfirskriftinni Störf kennara í öndvegi.
 

 

Tengt efni