is / en / dk

21. Janúar 2019

Ríflega eitt hundrað ljóð, sögur og textar bárust frá leikskólabörnum, víðsvegar af landinu, í samkeppninni Að yrkja á íslensku. Um er að ræða ritlistarsamkeppni meðal leikskólabarna sem nú er haldin í fyrsta skipti og tilefnið er Dagur leikskólans 2019. Samkeppnin er liður í vitundarvakningu sem KÍ hratt af stað á Alþjóðadegi kennara í haust. Þá var ákveðið að setja móðurmálið í forgang og vinna að verndun og eflingu þess.

Það styttist í Dag leikskólans en honum er fagnað 6. febrúar ár hvert og hefur svo verið gert síðustu ellefu árin. Sjötti febrúar er merkisdagur í sögu leikskólans en á þessum degi árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín hér á landi. 

Dómnefndar bíður nú ærið en ánægjulegt verkefni við að lesa og rýna í hið frjóa og flotta framlag leikskólabarnanna sem tóku þátt. Úrslit í samkeppninni verða gerð kunn á Degi leikskólans. Dómnefnd skipa Haraldur Freyr Gíslason, formaður Félags leikskólakennara, Sigrún Birna Björnsdóttir, sérfræðingur hjá KÍ og formaður Samtaka móðurmálskennara, og Steinunn Inga Óttarsdóttir, sérfræðingur hjá KÍ, bókmenntafræðingur og gagnrýnandi. Veitt verða þrenn verðlaun. 

Leikskólakennarar, stjórnendur og starfsfólk leikskóla eru hvatt til að halda upp á Dag leikskólans og um leið gera starf leikskólans sýnilegt. Myllumerki dagsins er #dagurleikskolans2019. 

Við segjum góðan dag alla daga.

 

 

Tengt efni