is / en / dk

23. Janúar 2019

Líðan nemenda er almennt góð skv. rannsókn á vegum Rannsóknastofu í tómstundafræðum Háskóla Íslands. Um 90% nemenda svara að þeim líði þokkalega eða mjög vel í skólanum en um 10% nemenda segjast ekki líða vel í skólanum.

Niðurstöður rannsóknarinnar Heilsa og lífskjör skólanema sem unnin er að tilstuðlan Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (e. WHO) byggja á svörum rúmlega 7.000 íslenskra nema. 

Um 81% nemenda í 6. bekk og 65% í 10. bekk telja að kennurum sé annt um sig sem er jákvæð niðurstaða og treysta langflestir kennara sínum og virðist það eiga við nemendur í öllum landshlutum. 

Í rannsókninni var spurt um líkamsrækt og hreyfingu og flestir nemendur í öllum aldurshópum hreyfa sig reglulega en þó dregur úr hreyfingu með hækkandi aldri. Matarvenjur eru einnig nokkuð góðar og er ávaxta- og grænmetisneysla almenn meðal nemenda. Í skýrslunni er bent á að aukning á neyslu orkudrykkja er með hækkandi aldri á milli kannanna, en þær eru gerðar á fjögurra ára fresti.

Námsálag eykst milli 6. og 10. bekkjar en tæpur fjórðungur nemenda í 10. bekk telur námsálag of mikið. 

Komið er inn á marga þætti í rannsókninni og er þetta ein viðamesta rannsókn samtímans á sviði heilsu og heilsutengdrar hegðunar ungs fólks. Árið 2018 tóku rúmlega 40 lönd þátt. 

 

Heilsa og lífskjör skólanema á Íslands. 
Nánar um rannsóknina í heild. 

 

 

Tengt efni