is / en / dk

05. Febrúar 2019

Nefnd forsætisráðherra um umbætur á úrvinnslu og nýtingu launatölfræðiupplýsinga leggur til ýmsar breytingar um hvernig staðið verði að söfnun, vinnslu og birtingu launaupplýsinga hér á landi. Lagt er til að tekinn verði upp vettvangur um samráð á milli aðila í aðdraganda kjarasamninga, svipað og tíðkast í Noregi.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýútkominni skýrslu nefndarinnar. Oddur S. Jakobsson, hagfræðingur KÍ, sat í nefndinni fyrir hönd Kennarasambandsins en auk hans áttu sæti fulltrúar forsætisráðuneytis, ríkissáttasemjara, velferðarráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga, BSRB, BHM, ASÍ, Hagstofu Íslands, Samtökum atvinnulífsins og Seðlabanka Íslands.

Þá er í skýrslunni að finna Drög að samkomulagi um hlutverk og umgjörð Kjaratölfræðinefndar (KTN). Þar segir að aðilar séu „sammála um að stofna til samstarfs heildarsamtaka á vinnumarkaði, ríkis og sveitarfélaga um gerð og hagnýtingu tölfræðigagna um launa og efnahag til undirbúnings og eftirfylgni með kjarasamningum. Nefndinni er ætlað að stuðla að því að aðilar samkomulagsins hafi sameiginlegan skilning á eðli, eiginleikum og þróun þeirra hagtalna sem mestu varða við gerð kjarsamninga,“ eins og segir orðrétt í skýrslunni.

Lagt er til að nefndin gefi út tvær skýrslur árlega þar sem settar verða fram upplýsingar sem nefndin er sammála um að gefi skýra mynd af stöðu mála og þróun. Þá verði fjallað um þróun launa, tekna og verðlags, stöðu og horfur í efnahags- og atvinnumálum, samkeppnishæfni auk alþjóðlegs samanburðar. Í drögunum er lagt til að fyrsta skýrsla nefndairnnar verði gefin út fyrir lok mars 2020. 

Nefndin, sem var skipuð á síðasta ári, hélt alls 32 fundi og naut ráðgjafar innlendra og erlendra sérfræðinga. 

Helstu tillögur nefndarinnar eru þessar:

  • Nefndin leggur til að tekinn sé upp sambærilegur vettvangur um samráð milli aðila í aðdraganda kjarasamninga og tíðkast í Noregi.
  • Nefndin telur að koma eigi á heildarsöfnun launaupplýsinga beint frá launagreiðendum. Nefndin leggur þó áherslu á að einnig er mikilvægt að efla núverandi launarannsókn samhliða heildargagnasöfnun til að áhætta við breytta gagnaöflun verði viðunandi og unnt verði að brúa bilið milli ólíkra gagna og tímaraða.
  • Nefndin leggur áherslu á mikilvægi þess að hafa áreiðanlegar upplýsingar um vinnutíma, sérstaklega um unnar stundir.
  • Nefndin er sammála um að mikilvægt sé að uppfæra íslenska starfaflokkunarkerfið svo það taki betur mið af þeim störfum sem hafa breyst og orðið til á síðustu áratugum og leggur áherslu á að Hagstofan ljúki því verkefni.
  • Nefndin beinir þeim tilmælum til Hagstofu Íslands að skoðað verði hvernig launavísitalan endurspegli hækkandi starfsaldur og aukna menntun og verði þar tekið mið af tillögum dr. Kim Zieschang. Niðurstöður greiningarinnar verði birtar opinberlega og brugðist við ef þær leiða í ljós bjögun á launavísitölunni.
     

Launatölfræði á Íslandi – skýrslar nefndar um umbætur á úrvinnslu og nýtingu launatölfræðiupplýsinga -- PDF. 

 

Tengt efni