is / en / dk

05. Febrúar 2019

Orðsporið 2019 – hvatningarverðlaun veitt á Degi leikskólans – kemur í hlut Seltjarnarnesbæjar þetta árið. Seltjarnarnesbær hlýtur verðlaunin fyrir að vera það sveitarfélag sem þykir hafa skarað fram úr við að bæta starfsaðstæður og starfskjör leikskólakennara umfram kjarasamning.

Efnt var til hátíðarhalda í leikskólanum Brákarborg við Brákarsund í morgun. Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, afhenti Ásgerði Halldórsdóttur, bæjarstjóra Seltjarnarness, Orðsporið 2019. Börnin á Brákarborg skemmtu gestum með fallegum söng. 

Skólamálanefnd Félags leikskólakennara gerði nýverið könnun meðal allra sveitarfélaga landsins þar sem spurt var um atriði á borð við aukinn undirbúningstíma, tölvukost, styttingu vinnuviku, rými barna og ýmis hlunnindi.

Fram kom í niðurstöðum könnunarinnar að á Seltjarnarnesi hefur undirbúningstími leikskólakennara verið aukinn, tölvukostur er í góðu lagi, starfsfólki hefur verið fjölgað, föst viðbótargreiðsla er greidd mánaðarlega og leikskólakennarar njóta hlunninda á borð við samgöngustyrk, líkamsræktarstyrk, þeir fá frítt í sund og bókasafnskort. Þá er unnið að styttingu vinnuvikunnar á Seltjarnarnesi.

Þess má geta að Reykjavíkurborg og Hvalfjarðarsveit fylgdu fast á hæla Seltjarnarness. 

Dagur leikskólans er nú haldinn hátíðlegur í tólfta sinn en sjötti febrúar er merkilegur dagur í leikskólasögu þjóðarinnar því á þessum degi árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólanna fyrstu samtök sín. Orðsporið er að þessu sinni veitt í sjöunda sinn en verðlaunin voru fyrst veitt árið árið 2013.


Að yrkja á íslensku – úrslit
Þá voru einnig kynnt úrslit í ritlistarsamkeppninni „Að yrkja á íslensku“ sem efnt var til í tilefni dagsins. Fyrstu verðlaun hlaut Bjarkey Sigurðardóttir, leikskólanum Jötunheimum á Selfossi fyrir ljóðið Sumar, önnur verðlaun hlaut Hersteinn Snorri , leikskólanum Ásgarði í Húnaþingi, fyrir ljóðið Skipstjórinn og þriðju verðlaun fengu Maceij, Indiana Alba, Katla Sól, Helga Katrín, Arnlaug Fanney í leikskólanum Akraseli á Akranesi fyrir ljóðið Ævintýri.

Haraldur Freyr Gíslason, formaður FL, og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri kynntu úrslit í keppninni. Borgarstjóri afhenti síðan Bjarkeyju Sigurðardóttur viðurkenningu fyrir besta ljóðið. 

Kennarasambandið óskar Seltjarnarnesbæ til hamingju með Orðsporið 2019 og sendir ungskáldunum sem tóku þátt í samkeppninni „Að yrkja á íslensku“ heillaóskir.

Frétt um Að yrkja á íslensku

Myndasafn frá hátíðarhöldunum.


Fyrri Orðsporshafar eru: 

 • 2018 Hörgársveit
  Fyrir að vera það sveitarfélag sem státar af hæsta hlutfalli leikskólakennara sem starfa við uppeldi og menntun leikskólabarna. 
 • 2017 Framtíðarstarfið
  Kennaradeild HA, Menntavísindasvið HÍ, mennta- og menningarmálaráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga og Kennarasamband Íslands fengu verðlaunin fyrir framlag og þátttöku í Framtíðarstarfinu – átaksverkefni um eflingu leikskólastigsins. 
 • 2016 Ásmundur Örnólfsson aðstoðarleikskólastjóri
  Fyrir að vera framúrskarandi fyrirmynd fyrir karla í leikskólakennarastarfi og leggja sitt af mörkum til að efla orðspor leikskólakennarastarfsins.
 • 2015 Kópavogsbær og sveitarfélagið Ölfus
  Fyrir að sýna sveigjanleika þannig að starfsfólk leikskóla geti sinnt námi með vinnu; aðstoða við námskostnað og veita launuð námsleyfi.
 • 2014 Okkar mál – þróunarverkefni
  Verkefni sem fól í sér aukið samstarf skóla og stofnana í Fellahverfi.
 • 2013 Súðavíkurhreppur / Kristín Dýrfjörð og Margrét Pála Ólafsdóttir
  Súðavíkurhreppur fyrir að bjóða gjaldfrjálsan leikskóla. Kristín og Margrét Pála fyrir að vekja umræðu á málefnum leikskólans. 

Tengt efni