is / en / dk

14. Febrúar 2019

Starfsemi Kennarasambands Íslands flyst í ný húsakynni á vordögum. Gengið var frá kaupum á sjöttu hæð Borgartúns 30 fyrr í dag. Aðdragandinn hefur verið langur en um þessar mundir eru fimmtán ár síðan markvisst var farið að leita leiða við að leysa úr húsnæðisvanda Kennarasambandsins. Húsnæðismál KÍ hafa verið viðfangsefni allra þinga sambandsins síðan árið 2005. 

Hið nýja húsnæði mætir nútímakröfum félagsmanna en aðgengismál fyrir fatlaða og hreyfihamlaða hafa aldrei verið í lagi í Kennarahúsinu. Þá verður aðstaða til funda afar góð í hinu nýja húsnæði sem og vinnuaðstaða starfsfólks. 

Samræður við forsætisráðherra um framtíð Kennarahússins standa yfir og mun Kennarasambandið leita allra leiða til að halda húsinu í sinni vörslu áfram. „Það verður verkefni til framtíðar að marka Kennarahúsinu hlutverk við hæfi þótt ljóst sé orðið fyrir löngu að húsið sé ófullnægjandi sem höfuðstöðvar stéttarfélags," segir Ragnar Þór Pétursson, formaður KÍ, í bréfi til félagsmanna KÍ. 

Sjöunda þing KÍ, sem fram fór í apríl 2018, ályktaði um húsnæðismál KÍ og kemur fram í greinargerð að ljóst sé að núverandi húsnæði KÍ dugi ekki lengur fyrir starfsemi sambandsins. Þá veitti Sjöunda þing KÍ „stjórn KÍ heimild til að kaupa hentugt húsnæði fyrir starfsemi KÍ þar sem öllum nútímaþörfum félagsmanna verði mætt og horft til framtíðar,“ eins og segir orðrétt í ályktuninni. 

Það er von KÍ að fleiri félagsmenn nýti sér þá þjónustu sem boðið er upp á enda verður aðgengi og aðkoma í Borgartúninu eins og best verður á kosið. 

Kennarasambandið á að baki langa sögu í Kennarahúsinu, eða gamla Kennaraskólanum, en félögin sem síðar mynduðu grunn KÍ hafa verið með aðsetur í húsinu síðan árið 1992.

„Það er býsna stór stund í sögu KÍ að færa starfsemina úr Kennarahúsinu. Tilfinningin er blendin. Þetta er þó nauðsynleg breyting svo byggja megi upp starfsemi sambandsins til framtíðar," segir Ragnar Þór Pétursson, formaður KÍ. 

 

Tengt efni