is / en / dk

25. Febrúar 2019

Frumvarpsdrög nýrra laga um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leik-, grunn- og framhaldsskóla eru nú aðgengileg í Samráðsgátt stjórnvalda. Tilgangur frumvarpsins er að gefa framvegis út eitt leyfisbréf til kennslu hérlendis í stað þriggja. Einnig stendur til að lögfesta ákvæði um hæfni sem kennarar þurfa að búa yfir til samræmis við þá ábyrgð sem felst í starfi þeirra. 

Ragnar Þór Pétursson, formaður KÍ, skrifaði grein um málið þar sem hann hvatti félagsmenn til að kynna sér drögin og gera athugasemdir við efni þeirra. Hann fer ítarlega yfir upphaf málsins, söguna og fleira og segir í niðurlagi: „Ég held ég hafi gert grein fyrir helstu atriðum frumvarpsdraganna hér að ofan. Nú hvet ég kennara til að lesa frumvarpsdrögin vandlega. Mér skilst að menntamálaráðherra taki samráðsferlið alvarlega og muni taka til náinnar skoðunar allar athugasemdir sem berast. Hugmyndin með frumvarpinu er skýr: Að búa til í landinu grunn undir eina stétt kennara sem sérhæfi sig á sem fjölbreyttastan hátt. Þá er von ráðherra sú að kennarastarfið verði meira aðlaðandi í augum ungmenna sem sjái fram á meiri möguleika og hreyfanleika en í mörgum öðrum störfum.

Í grunninn er um að ræða breytingar sem háskólasamfélagið, kennaraforystan og aðrir hagaðilar hafa verið að kalla á í meira en áratug. Hvort útfærslan sé vel heppnuð eða ekki kemur eiginlega ekki í ljós fyrr en nú í samráðsferlinu þegar (vonandi) þúsundir kennara skoða málin í kjölinn, ræða drögin og gefa síðan upplýst álit á þeim.

Þess vegna skora ég á kennara að nota samráðsgáttina, samfélagsmiðla eða hvaða vettvang sem er til að fjalla um þessar breytingar,“ skrifar Ragnar Þór Pétursson, formaður KÍ. 


Skiptar skoðanir
Félag grunnskólakennara og Skólastjórafélag Íslands hafa sent umsögn um frumvarpið inn í samráðsgátt stjórnvalda. Félögin fagna frumvarpinu og telja það auka gæði menntunar og fjölbreytileika. Þá segja þau að í frumvarpinu felist viðurkenning á hæfni og störfum kennara og faglegu sjálfstæði þeirra. 

Formaður Félags framhaldsskólakennara hefur lýst sig andsnúinn einu leyfisbréfi og segir slíkt væri gríðarleg afturför til fortíðar „m.a. í ljósi þeirra gæðaviðmiða sem sett voru um menntun framhaldsskólakennara árið 2008“. Þá hafa 13 kennarafélög framhaldsskóla ályktað gegn málinu. 

Á vef Stjórnarráðsins segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra: „Frumvarpið er liður í aðgerðum stjórnvalda til þess að bæta starfsumhverfi í menntakerfinu til framtíðar. Þar eru kennarar lykilfólk, þeir móta framtíð okkar allra með störfum sínum og það er okkar markmið að stuðla sem best að starfsþróun þeirra. Það gerum við meðal annars með því að horfa til hæfni íslenskra kennara, auka sveigjanleika og skapa svigrúm fyrir aukið flæði milli skólastiga.“

 

Félagsmönnun er bent á að umsagnarfrestur er einungis til 8. mars nk.

Pistill Ragnars Þórs Péturssonar, formanns KÍ.

Frétt á vef Stjórnarráðsins.

Samráðsgátt stjórnvalda.

Ályktanir, pistlar og umsagnir

Tengt efni