is / en / dk

01. Mars 2019

Fyrir neðan eru ábendingar vegna greiðslna úr eftirtöldum endurmenntunarsjóðum KÍ:

  • Vísindasjóður Félags leikskólakennara og Félags stjórnenda leikskóla.
  • Vonarsjóður Félags grunnskólakennara og Skólastjórafélags Íslands.
  • Vísindasjóður Félags framhaldsskólakennara og Félags stjórnenda í framhaldsskólum.
  • Starfsmenntunarsjóður Félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum.
     

Launamiðar eru ekki sendir út til félagsmanna KÍ í almennum pósti heldur eru þeir eingöngu aðgengilegir í rafrænum skjölum í heimabanka. Fjárhæðin á launamiðanum vegna greiðslna frá KÍ er forskráð á tekjusíðu skattframtals 2019 (vegna 2018) undir lið 2.3 Lífeyrisgreiðslur. Greiðslur frá Tryggingastofnun. Aðrar greiðslur, styrkir o.fl.“ við línu „Styrkir til náms, rannsókna og vísindastarfa (heildarfjárhæð)“ í reit 131. (Sjá nánar á sundurliðunarblaði, sem fylgir framtali, yfir allar forskráðar greiðslur).

Athygli er vakin á því að fjárhæðir sem færa má til frádráttar skal skrá undir lið 2.6 „Frádráttur“ í reit 149. Þær upphæðir eru EKKI forskráðar.

Heimilt er að draga frá kostnað á móti endurmenntunarstyrk. Er því skráður útlagður kostnaður (t.d. námsskeiðskostnaður) á móti styrkupphæð undir lið 2.6 „Frádráttur“ í línu „Frádráttur á móti náms-, rannsóknar- og vísindastyrkjum“ í reit 149. Þegar smellt er í „Færa frádrátt“ opnast yfirlit þar sem félagsmenn geta gert grein fyrir kostnaði á móti styrk.
 


Til athugunar fyrir framteljendur: Leiðbeiningar um útfyllingu skattframtals einstaklinga og leiðbeiningarbækling RSK fyrir einstaklinga, SJÁ HÉR.Ábendingar vegna styrkja úr:

  • Sjúkrasjóði KÍ:

Allir styrkir Sjúkrasjóðs, nema dánarbætur KÍ, teljast skatt- og staðgreiðsluskyldar tekjur. Félagsmenn hafa nú þegar greitt skatt af þessum styrkjum. Ekki eru sendir út launamiðar til félagsmanna í almennum pósti heldur eru þeir eingöngu aðgengilegir í rafrænum skjölum í heimabanka. Fjárhæðin á launamiðanum er forskráð á tekjusíðu skattframtals 2019 (vegna 2018) undir lið 2.3 undir „Annað, hvað?“ í reit 96 og á þetta við um sjúkradagpeninga og aðra styrki sjúkrasjóðs.

Dánarbætur færast í undir lið 2.9 „Skattfrjálsar tekjur“ C í reit 73 á framtalinu. (Sjá nánar á sundurliðunarblaði, sem fylgir framtali, yfir allar forskráðar greiðslur).

Afdregin staðgreiðsla af sjúkradagpeningum og öðrum styrkjum sjúkrasjóðs er forskráð á skattframtalið undir lið 2.10Staðgreiðsla af tekjum (öðrum en fjármagnstegkjum)“ í reit 296.
 

Vert er að benda á leiðbeiningar frá Ríkisskattstjóra vegna frádráttarheimildar á styrkjum vegna heilsuræktar. Sjá: https://www.rsk.is/einstaklingar/tekjur-og-fradraettir/skattmat/.

Ef félagsmenn telja sig falla undir einhverja af eftirtöldum heimilum frádráttarliðum (sjá upptalningu hér fyrir neðan) þá getur félagsmaður fært styrkupphæð á móti kostnaði undir lið 2.6Frádráttur frá öðrum styrkjum og starfstengdum greiðslum„ í reit 157. Þegar smellt er í „Færa frádrátt“ opnast yfirlit þar sem félagsmenn geta gert grein fyrir kostnaði á móti styrk.

„Ekki skal telja til tekna starfsmanns greiðslu frá launagreiðanda, eða eftir atvikum stéttarfélagi, sem ætlað er að standa straum af kostnaði við íþróttaiðkun og aðra heilsurækt að því marki sem slík greiðsla fer ekki yfir 55.000 kr. á ári. Skilyrði er að starfsmaður leggi fram fullgilda og óvefengjanlega reikninga fyrir greiðslu á viðkomandi kostnaði. Með kostnaði við íþróttaiðkun og heilsurækt er átt við greiðslu á aðgangi að líkamsræktarstöðvum, sundlaugum og skíðasvæðum, greiðslu á æfingagjöldum í íþróttasali og félagsgjöldum í golfklúbba sem og þátttökugjöld vegna annarrar hreyfingar sem stunduð er með reglubundnum hætti. Einnig fellur hér undir kostnaður við aðra heilsurækt eins og t.d. jóga og annar sambærilegur kostnaður, þ.m.t. kostnaður vegna endurhæfingar.“

 

Tengt efni