is / en / dk

18. Mars 2019

Könnun þar sem spurt var um atriði á borð við aukinn undirbúningstíma, tölvukost, styttingu vinnuviku, rými barna og ýmis hlunnindi, var framkvæmd nýverið á vegum skólamálanefndar Félags leikskólakennara. Skólamálanefnd FL kallaði formlega eftir þessum upplýsingum og var uppleggið að kanna hvað sveitarfélög eru að gera umfram kjarasamninga til að bæta starfsaðstæður og starfskjör leikskólakennara. Búið er að vinna úr svörum og má sjá niðurstöðurnar í meðfylgjandi skjali.

Orðsporið 2019 - hvatningarverðlaun sem veitt voru á Degi leikskólans - voru veitt á grundvelli þessarar könnunar. Það var Seltjarnarnesbær sem hlaut verðlaunin fyrir að vera það sveitarfélag sem þótti hafa skarað fram úr við að bæta starfsaðstæður og starfskjör leikskólakennara umfram kjarasamning.

Fram kom í niðurstöðum könnunarinnar að á Seltjarnarnesi hefur undirbúningstími leikskólakennara verið aukinn, tölvukostur er í góðu lagi, starfsfólki hefur verið fjölgað, föst viðbótargreiðsla er greidd mánaðarlega og leikskólakennarar njóta hlunninda á borð við samgöngustyrk, líkamsræktarstyrk, þeir fá frítt í sund og bókasafnskort. Þá er unnið að styttingu vinnuvikunnar á Seltjarnarnesi. Þess má geta að Reykjavíkurborg og Hvalfjarðarsveit fylgdu fast á hæla Seltjarnarness. 

 

Könnun um kjör og starfsumhverfi leikskólakennara
Frétt um Orðsporið 2019

 

Tengt efni