is / en / dk

03. Júlí 2019

Fyrsti samningafundur Kennarasambands Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga fór fram í húsakynnum Ríkissáttasemjara í júní. Á fundinum var meðal annars farið yfir „stóru myndina“ vegna komandi kjarasamninga, svo sem hvernig megi nálgast markmið um jöfnun launa á milli markaða, það er hins opinbera og hins almenna. Samkomulagi um breytingar á skipan lífeyrismála opinberra starfsmanna fylgdi vilyrði um að laun milli markaða á tímabilinu 2016 til 2026. Þá skiptir máli hvernig viðræðum vindur fram um launaþróunartryggingu, vinnumarkaðsmál og Þjóðhagsráð. 

Sameiginleg viðræðuáætlun fimm aðildarfélaga (Félags grunnskólakennara, Skólastjórafélags Íslands, Félags leikskólakennara, Félags stjórnenda leikskóla og Félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum) og samninganefndar Sambandsins var undirrituð í lok maí. 

Ljóst er að samningaviðræður á opinberum markaði hafa gengið hægt að undanförnu. Rösklega 200 kjarasamningar eru nú lausir í landinu og samningar aðildarfélaga KÍ í flokki þeirra síðustu sem hafa losnað eða eru við það að losna. Enn fremur liggur fyrir að fundahöld munu liggja niðri þennan mánuðinn vegna sumarleyfa hjá Sambandinu og sumarlokunar hjá Ríkissáttasemjara. Samninganefndir KÍ og aðildarfélaganna munu hins vegar nýta tímann og halda áfram vinnu innan sinna raða; unnið verður jafnt að sameiginlegum hagsmunamálum og sértækum málum aðildarfélaganna. Félagsmenn KÍ verða upplýstir um gang mála þegar líður á sumarið. 

 

 

Tengt efni