is / en / dk

11. október 2019

Óhætt er að segja að Selfoss sé suðupottur faglegrar umræðu um skóla- og menntamál í dag. Ríflega sex hundruð félagsmenn KÍ eru staddir í bænum og ræða málin á námstefnu annars vegar og haustþingi hins vegar. 

Skólastjórafélag Íslands heldur árlega námstefnu sína á Hótel Selfossi í dag. Dagskrá er að vanda fjölbreytt en hæst ber framlag hins þekkta og virta fræðimanns, Andy Hargreaves, sem heldur tvo fyrirlestra á námstefnunni í dag auk þess að stýra málstofu í fyrramálið.

Þá fluttu erindi í morgun, Arnar Þór Jónsson héraðsdómari sem fjallaði um traust, virðingu og ábyrgð og Guðlaug Sturlaugsdóttir, skólastjóri í Árbæjarskóla, sem flutti erindi um kennslufræðilega forystu skólastjórnenda. Þátttaka er með allra besta móti en þrjú hundruð skólastjórnendur, víðs vegar af landinu, sitja námstefnuna og komust færri að en vildu. 

Skólastjórafélagið á Facebook.

 

Haustþing Kennarafélags Suðurlands
Rúmlega 300 grunnskólakennarar sæka árlegt haustþing Kennarafélags Suðurlands (KS) sem fram fer í Sunnulækjarskóla í dag. Um 250 félagar í KS sækja þingið auk sextíu list- og verkgreinakennara sem starfa á höfuðborgarsvæðinu.

Haustþingið hófst á erindi Ásdísar Hjálmsdóttur, afrekskonu í íþróttum, og gaf hún tóninn fyrir daginn – var í senn hvetjandi og uppörvandi. Dagskrá haustþingsins er fjölbreytt, níu fyrirlestrar og vinnusmiðjur af fjölbreyttum toga. 

Kennarafélag Suðurlands er víðfemt og nær frá Þorlákshöfn að Kirkjubæjarklaustri. Félagsmenn eru 308 talsins. 

Kennarafélag Suðurlands á Facebook
 

Félagar í KS ásamt list- og verkgreinakennurum af höfuðborgarsvæðinu. 

 

Tengt efni