is / en / dk

18. október 2019

Félag framhaldsskólakennara (FF) og Félag stjórnenda í framhaldsskólum (FS) beina þeim tilmælum til menntayfirvalda að ákvörðun um ráðningu skólameistara í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi (FVA) verði flýtt og að þegar í stað verði gerðar ráðstafanir til að leiðrétta laun starfsfólks FVA þannig að þau verði sambærileg og tíðkast í öðrum framhaldsskólum. 

Þetta er meðal þess sem kemur fram í yfirlýsingu sem félögin sendu frá sér í morgun. Þá lýsa stjórnir beggja félaga yfir vilja til samstarfs um lausn þessara mála. 

Yfirlýsingin hljóðar svo í heild: 

Yfirlýsing frá Félagi framhaldsskólakennara og Félagi stjórnenda í framhaldsskólum um ástand mála í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi

Félag framhaldsskólakennara (FF) og Félag stjórnenda í framhaldsskólum (FS) hvetja yfirvöld menntamála til að leysa nú þegar það erfiða ástand sem skapast hefur við Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Félögin beina eftirfarandi tilmælum til yfirvalda menntamála:

  • Að mennta- og menningarmálaráðuneytið flýti ákvörðun um ráðningu skólameistara til að ljúka því óvissuástandi sem er í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi.
  • Að gerðar verði ráðstafanir strax til þess að kjör starfsfólks verði leiðrétt og þeim tryggð sambærileg laun og tíðkast í öðrum framhaldsskólum.

Stjórnir FF og FS lýsa einnig vilja til samstarfs við menntamálayfirvöld um lausn þessara mála og fara þess á leit að tryggt verði í komandi kjaraviðræðum að tilvik eins og þetta geti ekki átt sér stað.

Reykjavík, 18. október 2019
 

Tengt efni