is / en / dk

06. Nóvember 2019

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, hafa í samvinnu við aðila menntakerfisins og Samband íslenskra sveitarfélaga  bundist samtökum um að veita Íslensku menntaverðlaunin. Verðlaunin voru veitt í tíð fyrri forseta frá árinu 2005 en hefur nú verið komið í ákveðinn farveg með samkomulagi milli þeirra sem að þeim standa. Skrifað var undir samkomulag um verðlaunin á Bessastöðum síðdegis í gær. Ragnar Þór Pétursson, formaður KÍ, skrifaði undir fyrir hönd kennarasamtakanna. 

Markmið verðlaunanna er að vekja athygli samfélagsins á metnaðarfullu og vönduðu skóla- og frístundastarfi og auka veg menntaumbótastarfs. Forseti hefur skipað Gerði Kristnýju Guðjónsdóttur, skáld og rithöfund, formann viðurkenningarráðs, sem mun halda utan um framkvæmd verðlaunaveitinganna.

 
Verðlaunin verða veitt í þremur flokkum:

  • til skóla eða annarrar menntastofnunar fyrir framúrskarandi starf;
  • til kennara sem stuðlað hefur að framúrskarandi menntaumbótum;
  • fyrir þróunarverkefni á sviði menntunar sem stenst ítrustu gæðakröfur.
  • Að auki verður veitt hvatning til einstaklings, hóps eða samtaka sem lagt hafa af mörkum við að stuðla að
    menntaumbótum sem þykja skara fram úr. 

Að Menntaverðlaununum standa embætti forseta Íslands, mennta- og menningarmálaráðuneyti, samgöngu- og sveitar­stjórnar­ráðuneyti, Félag um menntarannsóknir, Grunnur – félag fræðslustjóra og stjórnenda skólaskrifstofa, Kennaradeild Háskólans á Akureyri, Kennarasamband Íslands, Menntamálastofnun, Mennta­vísindasvið Háskóla Íslands, Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök áhugafólks um skólaþróun og Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar.

Stefnt er að því að tilnefningar til verðlaunanna verði kynntar á Alþjóðadegi kennara, 5. október, og verðlaunaafhending fari fram í nóvember ár hvert. 
 

MYNDATEXTI: Efri röð: Þrúður Hjelm, frá Samtökum áhugafólks um skólaþróun, Gerður Kristný skáld, Skúli Helgason, formaður Skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar , Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, Arnór Guðmundsson, forstjóri Menntamálastofnunar og Ragnar Þór Pétursson, formaður Kennarasambands Íslands. Neðri röð: Guðmundur Engilbertsson, formaður Kennaradeildar HA, Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Kolbrún Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs HÍ, og Helgi Arnarson, frá Grunni – félagi fræðslustjóra. Myndin var tekin við undirskrift samkomulags um Íslensku menntaverðlaunin sem fram fór á Bessastöðum 5. nóvember.

Ljósmynd / Kristinn Ingvarsson

 

Tengt efni