is / en / dk

07. Nóvember 2019

Ragnar Þór Pétursson, formaður Kennarasambands Íslands, sendi Eyjólfi Árna Rafnssyni, formanni Samtaka atvinnulífsins, bréf í tilefni skýrslu SA um áherslur í menntamálum. Í bréfi til samtakanna þakkar Ragnar Þór SA fyrir auðsýndan áhuga á menntamálum og hvetur þau til að horfa til stærri hagsmuna sem eru fjölskylduvænt samfélag. 

 

Bréf Ragnars Þórs Péturssonar, formanns KÍ, til Samtaka atvinnulífsins:

Samtök atvinnulífsins
Eyjólfur Árni Rafnsson formaður
Borgartúni 35, 105 Reykjavík

Kæri Eyjólfur,

fyrir hönd Kennarasambands Íslands vil ég þakka Samtökum atvinnulífsins fyrir auðsýndan áhuga á menntamálum, sem nú síðast birtist í skýrslunni „Menntun og færni við hæfi“. Menntakerfið og atvinnulífið eru tvö af grundvallarkerfum samfélagsins – og saman mynda samtök okkar nána umgjörð um mikilvægasta hlutverk hverrar manneskju, sem er að koma sjálfri sér og börnum sínum til þroska. 

Það er ljóst af hinni nýju skýrslu að SA óar nokkuð við auknum áherslum á fjölskylduvænt samfélag á Íslandi og telur einsýnt að foreldrar (og þá sérstaklega mæður) lendi í auknum mæli í þeirri stöðu að þurfa að velja á milli atvinnu sinnar og barna. 

Ég vil hvetja ykkur til að missa ekki móðinn heldur horfa til stærri hagsmuna. Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna hefur síðustu misseri ítrekað bent á þau tækifæri sem felast í fyrstu 1000 dögum ævi hvers barns. Á því æviskeiði geta myndast meira en milljón tengingar í heila barns á hverri sekúndu. Slíkt endurtekur sig ekki síðar á ævinni. Framtíðarmöguleikar barna ráðast af töluverðu leyti af því hvernig að þeim er hlúð þessa fyrstu þúsund daga. Það hefur veruleg áhrif á þroska heilans, hamingju, námsgetu, velferð og tekjumöguleika síðar á ævinni.

Fyrstu 1000 dagarnir eru mesta hagvaxtarskeið hvers lífs. Á þeim hagvexti hvíla framtíðarhagvaxtarhorfur samfélagsins alls. Framtíðarhagsmunir heildarinnar eru því samofnir hagsmunum barnanna. 

Ég hvet SA til þess að sýna nú framsýni og dug og stuðla að því að íslensk fyrirtæki fjárfesti í framtíðinni með því að setja hagsmuni barna í forgang fyrstu 1000 daga ævinnar. Ykkur til stuðnings læt ég fylgja hér með nokkrar hugmyndir, byggðar á tillögum Unicef um fjölskylduvænan vinnumarkað, sem þið getið stuðst við:

1. Upprætið þá mismunun á íslenskum vinnumarkaði sem felst í takmörkunum á tækifærum kvenna á vinnumarkaði vegna barneigna og umönnunar ungra barna.
2. Beitið ykkur fyrir lengra orlofi feðra og mæðra og aukið samvistir foreldra og barna.
3. Stuðlið að auknum sveigjanleika á vinnustöðum svo hægt sé að samræma einkalíf og vinnu.
4. Beitið ykkur fyrir gæða umönnun og menntun – og standið í vegi fyrir tilraunum til að auka „þjónustu“ í menntakerfinu á kostnað gæða.
5. Tryggið að laun dugi fyrir framfærslu.
6. Standið sérstakan vörð um þá hópa sem höllustum fæti standa á íslenskum vinnumarkaði.
7. Stuðlið að uppbyggilegri og jákvæðri uppeldismenningu á íslenskum vinnustöðum og vekið athygli á mikilvægi tengslamyndunnar og þroska á fyrstu æviárunum.
8. Gerið kröfu um að fyrirtæki sýni samfélagslega ábyrgð í verki meðal annars með því að auka meðvitund um mikilvægi þessara mála meðal samstarfsaðila og viðskiptavina.

Endilega hóaðu saman þínu fólki til skrafs og ráðagerða um þessi framfaramál (ég læt fylgja dálítið góðgæti með þessu bréfi sem þið getið snætt á slíkum fundi). Sýnið djörfung og framsýni – og takið forystu á þessu mikilvæga sviði. Svo ég vitni í ykkur sjálf:  „Betri heimur byrjar heima“. 

Kær kveðja,
Ragnar Þór Pétursson formaður Kennarasambands Íslands.

 

Frétt RÚV um skýrslu SA.

Menntun og færni við hæfi, skýrsla SA um áherslur atvinnulífsins í menntamálum til framtíðar.
 

 

Tengt efni