1. EININGABÆRT NÁM - ECTS
Félagsmaður sem sækir háskólanám eða sambærilegt nám vegna viðbótar- eða endurmenntunar sem stjórn metur styrkhæft, getur sótt um styrk vegna þess náms. Styrkurinn er 5.000 krónur á hverja staðna ECTS, að hámarki 60 ECTS, eða kr. 300.000 á hverjum fjórum árum.
Með umsókn skal skila vottorði frá viðkomandi skólastofnun sem staðfestir námsleið og fjölda lokinna eininga. Námið þarf að hafa farið fram á síðustu tveimur árum.
2. SKÓLAHEIMSÓKNIR HÓPA ERLENDIS
Styrkir vegna skólaheimsókna hópa erlendis eru eingöngu veittir vegna ferða sem skipulagðar eru fyrir hópa kennara innan sama skóla/vinnustaðar. Umsóknum um styrki vegna ferða sem eru skipulagðar af aðilum/félögum utan skóla verður hafnað. Skólaheimsóknir skipulagðar af einstaklingum sem fara á eigin vegum eru ekki styrktar.
Dagskrá skólaheimsókna skal ná yfir tvo heila daga og að minnsta kosti tveir skólar skulu heimsóttir.
Skipulag ferðar skal borið undir sjóðstjórn fyrirfram í þeim tilgangi að fá staðfestingu sjóðstjórnar á styrkhæfi viðkomandi skólaheimsóknar. Sjóðsstjórn metur hvort skólaheimsókn er styrkhæf. Hafi sjóðstjórn ekki staðfest styrkhæfi skólaheimsóknar fyrirfram verður umsókn hafnað.
Til að hægt sé að meta styrkhæfi umsóknar skóla þarf sjóðnum að berast:
-
Dagskrá fyrirhugaðrar ferðar.
-
Staðfesting frá forsvarsmönnum skóla erlendis þar sem kemur fram að tekið verði á móti hópnum.
-
Listi yfir sjóðfélaga sem hyggjast fara í viðkomandi ferð.
Æskilegt er að framangreindar upplýsingar berist sjóðnum með góðum fyrirvara, a.m.k. 3 mánuðum fyrir brottför.
Vinsamlegast takið fram ef aðrir aðilar styrkja verkefnið því þeir styrkir dragast frá styrk Vísindasjóðs FF og FS.
Styrkur vegna skólaheimsókna er að hámarki kr. 130.000, samkvæmt starfshlutfalli. Styrkur verður aldrei hærri en reikningar fyrir útlögðum kostnaði hljóða upp á meðan skólaheimsókn varir.
Félagsmaður sækir um á Mínum síðum og skilar með umsókn gildum reikningum vegna ferðakostnaðar og gistingar ásamt kostnaðaryfirliti.
Kvittanir vegna leigubíla, matsölustaða, aðgöngumiða að söfnum, leikhúsum o.fl. eru ekki nothæfar í þessu sambandi. Ferðakostnaður innanlands er styrkhæfur, þó aldrei umfram hámarksstyrk.
Styrkhæf útgjöld eru ferðakostnaður og gisting meðan skólaheimsókn stendur (hámark 5 gistinætur).
Að ferð lokinni skal skipuleggjandi ferðar og einn ábyrgðarmaður skila inn endanlegum og staðfestum lista yfir þá sem fóru í viðkomandi ferð og staðfestingu á að heimsóknirnar hafi farið fram.
Tvö ár þurfa að líða milli skólaheimsókna, miðað er við greiðsludagsetningu síðustu úthlutunar félagsmanns til skólaheimsóknar.
3. EINSTAKLINGSSTYRKUR: NÁMSKEIÐ, RÁÐSTEFNA
Námskeið eða ráðstefna sem stendur að lágmarki í 2 daga eru styrkhæf í sjóðnum ásamt skóla- eða skráningargjöldum við viðurkennda háskóla erlendis. Styrkupphæð getur verið allt að kr. 250.000 á hverjum tveimur árum. Miðað er við greiðsludagsetningu síðustu úthlutunar. Rétt er að ítreka að hámarksstyrkur úr sjóðnum getur þó aldrei orðið hærri en kr. 500.000 úr B deild á hverjum fjórum árum.
Ráðlagt er að sækja um vilyrði fyrir styrk til sjóðstjórnar áður en farið er á námskeið eða ráðstefnu erlendis.
Styrkir eru veittir vegna:
-
Ferðakostnaðar (til og frá ráðstefnustað / menntastofnunar).
-
Gistingar þann tíma sem ráðstefna/námskeið stendur.
-
Ráðstefnugjalda / námskeiðsgjalda.
Ef sótt er um styrk vegna ferðakostnaðar skal farseðill/reikningur fyrir flugi og/eða staðfesting ferðakostnaðar fylgja umsókn.
Ef sótt er um styrk vegna gistingar skal frumrit reiknings frá gististað fylgja með styrkumsókn og skal reikningur/kvittun vera á nafni umsækjanda. Að hámarki eru greiddar 5 gistinætur.
Umsækjendum er bent á að biðja sérstaklega um frumrit reiknings, með kvittun eða lausa kvittun fyrir greiðslu en rafrænar kvittanir eru einnig gildar. Athugið að staðfesting á bókun er að öllu jöfnu ekki jafnframt reikningur.
Ef sótt er um styrk vegna ráðstefnugjalds/námskeiðsgjalds skal frumrit reiknings fylgja með styrkumsókn. Umsækjendum er bent á að biðja sérstaklega um frumrit reiknings með kvittun eða lausa kvittun fyrir greiðslu og getur hún verið annað hvort á pappír eða rafræn.
Öllum umsóknum skal fylgja þátttökustaðfesting og/eða aðgangspassi að ráðstefnu (frumgagn) og/eða yfirlýsing um að námskeið hafi verið sótt.
Minnt er á að taka fram í umsókn ef aðrir aðilar styrkja verkefnið því þeir styrkir dragast frá styrk Vísindasjóðs FF og FS.
Einstaklingsstyrkur: sýning
Styrkur til að fara á sýningu, s.s. Bett, World Skills eða sambærilega, er veittur einu sinni á tveggja ára fresti. Miðað er við greiðsludagsetningu síðustu úthlutunar. Hámarksstyrkur er kr. 100.000 og gilda að öðru leyti sömu reglur og um ráðstefnur og námskeið erlendis.
4. NÁMSORLOF
Styrkur vegna orlofs í heilt ár, þar sem styrkþegi er við nám á Íslandi, er að hámarki kr. 300.000.
Styrkur vegna orlofs í heilt ár, þar sem styrkþegi er við nám erlendis, er að hámarki kr. 400.000.
Sjóðstjórn er heimilt að reikna styrkinn hlutfallslega miðað við lengd orlofs og samspil námstíma hér heima og erlendis. Umsóknir má senda inn við upphaf orlofsárs og verða styrkir greiddir þegar námsorlofsnefnd hefur upplýst sjóðinn um orlofsþega viðkomandi starfsárs. Umsækjendur skila staðfestingu frá námsorlofsnefnd og kvittun fyrir greiðslu skólagjalda.
Sækja þarf um styrk vegna námsorlofs innan 12 mánaða frá því að orlofi lýkur.