is / en / dk

Styrkir

Sótt er um styrk í Sjúkrasjóð KÍ á Mínum síðum og þegar það á við er kvittun fyrir greiðslu látin fylgja með í viðhengi.

Kvittanir / reikningar mega ekki vera eldri en 12 mánaða. Vinsamlega athugið að umsóknir eru afgreiddar samkvæmt þeim reglum sem eru í gildi þegar umsókn berst til sjúkrasjóðs KÍ en EKKI samkvæmt dagsetningu kvittunar.

Einnig er vert að taka fram að ef kvittun tekur yfir meðferðartímabil þá verður að gæta þess að öll skiptin sem kvittunin nær yfir falli innan 12 mánaða tímabilsins. Sjá dæmi fyrir neðan:

Kvittun er fyrir 10 skiptum í sjúkranuddi. Dagsetning kvittunar er 1. desember 2016 og nær yfir meðferðartímabilið frá 15. nóvember 2015 til 1. desember 2016 (rúmt ár). Félagsmaður sendir síðan styrkbeiðni til sjúkrasjóðs KÍ þann 1. janúar 2017. Afgreiðsla þessarar umsóknar yrði á þann veg að meðferðir á tímabilinu frá 15. nóvember til 31. desember 2015 yrðu ekki styrkhæfar þar sem þær væru orðnar meiri en 12 mánaða.

 

Dæmi um heilsunudd með sömu forsendum og hér að ofan. Þessari umsókn yrði synjað þar sem hún berst eftir að nýjar reglur tóku gildi þrátt fyrir að hluti af meðferðinni hafi átt sér stað meðan eldri reglur voru í gildi. Það er dagsetning umsóknar sem ræður hvaða reglu er farið eftir. Ath. að eftir 15. nóvember 2016 þegar nýjar reglur sjúkrasjóðs tóku gildi er einungis sjúkranudd hjá löggiltum sjúkranuddara styrkt, EKKI heilsunudd.

Staðgreiðsla skatta er tekin af ÖLLUM styrkupphæðum Sjúkrasjóðs, skv. skattprósentu 36,94%,
nema þegar um útfararstyrk er að ræða.


Umsóknir sem þurfa að fara fyrir fund stjórnar sjúkrasjóðs þurfa að berast fyrir 15. hvers mánaðar ásamt öllum nauðsynlegum fylgiskjölum.

Senda skal fyrirspurnir og fylgiskjöl á sjodir@ki.is

 

 

Sjóðfélagar geta sótt um styrk vegna krabbameinsleitar:
 

 • Reglubundin krabbameinsleit (kembileit), að hámarki 6.600 kr. á tólf mánaða tímabili.
 • Framhaldsskoðun, að hámarki 20.000 kr. á tólf mánaða tímabili.
 • Ristilsskoðun, að hámarki 30.000 kr. á tólf mánaða tímabili.
 • Skoðun á blöðruhálskirtli, að hámarki 30.000 kr. á tólf mánaða tímabili.
   

 

Sjóðfélagar geta sótt um styrk vegna skoðunar hjá Hjartavernd eða sambærilegum aðila, að hámarki 10.000 kr. 

 

Sjóðfélagar geta sótt um að hámarki 3.500 kr. styrk, í allt að 10 skipti á hverju 12 mánaða tímabili, vegna meðferðar hjá viðurkenndum græðara:
 

 • Löggiltum sjúkranuddara
 • Osteopata
 • Nálastungumeðferð
 • Alexandertækni
 • Hnykkjari / kírópraktor
   

 

Sjóðfélagar geta sótt um að hámarki 10.000 kr. styrk, í allt að 10 skipti á hverju 12 mánaða tímabili, fyrir faghandleiðslu hjá:
 

 • Félagsráðgjafa
 • Listmeðferðarfræðingi
 • Sálfræðingi

Fyrir hópmeðferð eru greiddar allt að 5.000 kr. í allt að 10 skipti á hverju 12 mánaða tímabili. 

 

Sjóðfélagar geta sótt um styrk vegna kostnaðar við endurhæfingu á Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands, HNLFÍ. Styrkurinn nemur 5.000 kr. á dag í allt að 28 daga á hverju tólf mánaða tímabili.

 

Sjóðfélagar geta sótt um styrk til að sækja námskeið til að hætta að reykja hjá viðurkenndum aðilum, s.s. Krabbameinsfélaginu og heilsuverndarstöðvum, að hámarki 25.000 kr. á hverju tólf mánaða tímabili.
 

Sjóðfélagar geta sótt um styrk vegna endurhæfingar hjá Þraut. Greiddar eru að hámarki 35.000 kr. á hverju tólf mánaða tímabili.
 

 • Sjóðfélagar geta sótt um fæðingarstyrk að upphæð 215.600 kr.miðað við fullt starf síðastliðna 6 mánuði fyrir fæðingu barns eða samkvæmt meðalstarfshlutfalli þann tíma, enda fari sjóðfélagi með forsjá barnsins og taki að lágmarki þriggja mánaða fæðingarorlof. Hægt er að nýta styrkinn upp að 18 mánaða aldri barns.*
 • Vegna fjölburafæðingar eru greiddar 215.600 kr. fyrir hvert barn umfram eitt.
 • Um ættleiðingar gilda sömu reglur og um venjulega fæðingu væri að ræða.
   

Sé um fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu eða andvanafæðingu eftir 22 vikna meðgöngu er greiddur hálfur fæðingarstyrkur.

Með umsókn um fæðingarstyrk þarf að fylgja fæðingarvottorð frá Þjóðskrá Íslands, afrit af einum launaseðli frá Fæðingarorlofssjóði og staðfestingu frá launagreiðanda á umsóknareyðublaði, sjá eyðublað fyrir launagreiðanda hér.

*Félagsmaður þarf að vera með virka félagsaðild til að geta sótt um styrkinn. Bent er á að félagsmaður getur haldið virkri aðild ef greitt er í KÍ af fæðingarorlofsgreiðslum.

Dæmi: Ef sótt er um eftir að fæðingarorlofi lýkur og félagsmaður er í launalausu leyfi fellur réttur niður. Í slíkum tilfellum getur félagsmaður sótt um áframhaldandi félagsaðild í allt að 1 ár. Nánari upplýsingar um félagsaðild er að finna hér.

 

Sjóðfélagar geta sótt um styrk vegna:

 • Glasafrjóvgunar eða tæknisæðingar: Sjóðurinn endurgreiðir hluta kostnaðar, að hámarki 200.000 kr. á hverju 12  mánaða tímabili. 
 • Ættleiðingar: Sjóðurinn greiðir hluta kostnaðar, að hámarki 300.000 kr. fyrir hvert barn.
   

 

Sjóðfélagar geta sótt um styrk til kaupa á gleraugum og heyrnartækjum og vegna laseraðgerða:
 

 • Heyrnartæki: Styrkur er veittur sem nemur allt að 30% af kaupverði tækjabúnaðar.
 • Gleraugu: Styrkur er veittur einu sinni á hverjum 24 mánuðum sem nemur 30% af heildarkostnaði. Ekki er veittur styrkur nema kostnaður vegna gleraugnakaupa fari yfir 30.000 kr.
 • Laseraðgerð á augum: Styrkur getur numið að hámarki 70.000 kr. fyrir hvort auga eða 140.000 kr. fyrir bæði augu. Sama gildir um augasteinsaðgerðir.

 

Sjóðfélagi sem hefur fullnýtt veikindarétt sinn, og er því tímabundið ekki á launaskrá, getur sótt um sjúkradagpeninga úr Sjúkrasjóði KÍ. Upphæð dagpeninga er 12.500 kr. á dag. Greiddir eru 30 dagar í mánuði (375.000 kr. miðað við 100% starf). Réttur til dagpeninga miðast við 75% af veikindarétti sjóðfélaga en þó ekki lengur en ráðningu er ætlað að standa.
 

Einnig er hægt að sækja um sjúkradagpeninga vegna tekjuskerðingar í eftirtöldum tilfellum:

 • Veikindi barna: Sjúkrasjóður KÍ greiðir sjúkradagpeninga til sjóðfélaga sem verða fyrir tekjuskerðingu vegna langtímaveikinda barna, enda hafi veikindin staðið í a.m.k. þrjá mánuði. 
 • Veikindi maka: Sjúkrasjóður KÍ greiðir sjúkradagpeninga til sjóðfélaga sem verða fyrir tekjuskerðingu vegna langtímaveikinda maka, enda hafi veikindin staðið í a.m.k. þrjá mánuði.
 • Atvinnulausir sjóðfélagar: Kjósi atvinnulaus kennari að greiða félagsgjald til KÍ af atvinnuleysisbótum, er sjóðstjórn heimilt að greiða þeim sjúkradagpeninga en þó aldrei lengur en í þrjá mánuði.
 • Í sérstökum tilvikum er sjóðstjórn heimilt að greiða sjúkradagpeninga eftir að ráðningartímabili lýkur, í allt að fjóra og hálfan mánuð.
   

Sjúkradagpeningar að viðbættum sjúkradagpeningum almannatrygginga, örorkulífeyris frá lífeyrissjóðum eða Tryggingastofnun ríkisins geta aldrei numið hærri fjárhæð en sem nemur launaskerðingu sjóðfélaga.

Með umsókn um sjúkradagpeninga þarf að fylgja læknisvottorð sem tilgreinir þann dag er slys eða veikindi bar að höndum og hvenær viðkomandi varð/verður aftur starfshæfur, svo og staðfesting launagreiðanda um síðasta greiðsludag launa, meðalstarfshlutfall síðustu 12 mánaða og veikindarétt umsækjanda (sjá eyðublöð vegna þessa hér). Við langvarandi veikindi þarf að jafnaði að skila nýju læknisvottorði á tveggja mánaða fresti.

 

Sjóðstjórn er heimilt að veita styrk vegna tannlæknakostnaðar sem nemi 70% af kostnaði umfram 250.000 kr. (ekki er veittur styrkur af fyrstu 250.000 kr.) einu sinni á hverju tólf mánaða tímabili*, þó að hámarki 250.000 kr. Styrkur er ekki greiddur vegna aðgerða sem einungis eru gerðar í fegrunarskyni.

* Allar kostnaðarnótur sendast í einu lagi, einu sinni á 12 mánaða tímabili.
 

Dæmi um endurgreiðslu vegna tannlæknakostnaðar:

Ef kostnaður félagsmanns er orðinn 300.000 kr.
Þá dregst frá þeirri upphæð lágmarkið sem ekki er greiddur styrkur af, sbr. reglur -250.000 kr.
Eftirstöðvar til tannlæknastyrks 50.000 kr.
   
70% af eftirstöðvunum 35.000 kr.
Frá 70% eftirstöðvunum er dreginn skattur skv. þrepi 1 eða 36,94% -12.929 kr.
Styrkupphæð greidd til félagsmanns: 22.071 kr.
   

 

Sjóðurinn greiðir útfararstyrk allt að 350.000 kr. vegna andláts sjóðfélaga eða barna hans 20 ára og yngri. Enn fremur greiðir sjóðurinn útfararstyrk allt að 250.000 kr. vegna andláts fyrrverandi sjóðfélaga allt að fimm árum eftir að hann hefur hætt störfum vegna aldurs eða örorku. Útfararstyrkur greiðist til lögerfingja.
 

 • Með umsókn útfararstyrks sjóðsfélaga skal fylgja útskrift úr dánarskrá viðkomandi sýslumannsembættis.  
 • Með umsókn útfararstyrks vegna barns skal fylgja dánarvottorð ásamt reikningum fyrir útlögðum kostnaði við útför.
   

Ekki er tekin staðgreiðsla af útfararstyrk, líkt og af öðrum styrkjum sjóðsins.

Umsóknareyðublað.

 

Tengt efni

Styrkir Sótt er um styrk í Sjúkrasjóð KÍ á M&ia...
Sjóðfélagi í aðildarfélagi KÍ öðlast ré...
Hlutverk sjóðsins er að veita sjóðfélögum fjárhagsa&...