is / en / dk

Hávaði er skilgreindur sem óæskilegt eða skaðlegt hljóð og er talinn eitt af stærstu heilbrigðisvandamálum nútímans. Þó hávaði sé ekki lífshættulegur getur hann haft mikil áhrif á heilsu okkar og lífsgæði. Áhrif hans fara eftir því af hvaða toga hávaðinn er, tíðnisviði hans og styrkleika, hvernig hann breytist með tímanum og á hvaða tíma sólarhringsins við heyrum hann.

Fari hávaði yfir ákveðin mörk getur hann valdið heyrnarskemmdum. Hættumörk eru talin vera við 80-85 dB (jafngildishljóðstig) eða við styttri hljóðtoppa í 120-130 dB. Byggingarfulltrúar, heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga og Vinnueftirlit ríkisins hafa eftirlit með hljóðhönnun húsa og hávaða og mæla bæði hljóðstig og ómtíma.

Ómtími er mælikvarði á bergmál. Allt endurkast hljóðs er viðbót við það hljóð sem fyrir er og því skiptir miklu máli að draga úr endurkasti hljóðs á vinnustöðum. Ómtími veltur á eiginleikum veggja, lofts, gólfs og annarra hluta sem til staðar eru til að gleypa í sig hljóðið sem á þá fellur. Í leik- og grunnskólum á ómtími t.d. að vera á bilinu 0,6-1,5 sekúndur skv. byggingarreglugerð, eftir því til hvers rýmið skal notað. Í erlendum rannsóknum hefur hins vegar komið fram að ómtími í kennslurými barna þarf að vera 0,4 sekúndur til að koma í veg fyrir að hljóðgreining nemendanna skerðist. Viðmiðunarmörk í reglugerðum hérlendis eru því of há (0,6-0,8 sekúndur) þar sem miðað er við fullorðna en hljóðgreining þeirra skerðist ekki fyrr en eftir u.þ.b. 1 sekúndu.

Hávaðamælingar í skólum, leikskólum, íþróttahúsum og sundhöllum hér á landi sýna að þessir staðir uppfylla ekki kröfur um ómtíma auk þess sem meðaltal hljóðstigs þar er oft yfir hættumörkum (80-85 dB ). Þetta er verulegt áhyggjuefni meðal annars vegna þess að heyrn barna er viðkvæmari en fullorðinna og slíkt umhverfi fer illa með rödd kennara.

Þó að hægt sé að meðhöndla heyrnarskerðingu með heyrnartækjum er erfiðara að meðhöndla bæði eyrnasuð (sem fylgir oft heyrnarskerðingu af völdum hávaða) og minnkaða hæfni til að greina tal. Hávaði veldur þó ekki einungis heyrnarskerðingu. Umhverfishávaði getur einnig valdið svefntruflunum og streitu, verra minni, einbeitingarskorti og minni náms- og lestrargetu.


Rödd

Góð og heilbrigð rödd er áheyrileg og kemur töluðu máli vel til skila. Röddin er atvinnutæki kennara og því verður að hlúa vel að henni. Það er ýmislegt sem getur haft neikvæð áhrif á rödd kennarans, svo sem:

  • Krafa um að tala lengi.
  • Fjarlægð milli kennara og nemenda.
  • Mikill hávaði í umhverfinu.
  • Slæm loftgæði í kennslustofu.
  • Streita.
  • Skortur á raddþjálfun.

Samkvæmt könnunum er talið að talsverður hluti kennara þjáist af ýmsum álagseinkennum á röddina, svo sem þurrki, ertingu, sviða, hæsi án kvefs, ræskingaþörf, raddbresti og raddþreytu. Þeir eru líka líklegastir til að leita til læknis vegna raddvandamála og óþæginda þeim tengdum. Það er því mikilvægt fyrir kennara að kynna sér hvernig röddin virkar, hvað hefur áhrif á hana og hvernig sé best að beita henni til að það sem sagt er skili sér til nemendanna án þess að það bitni á raddheilsu kennarans. Meðal úrbóta hefur verið bent á að:

  • Nota magnarakerfi.
  • Draga úr hávaða - t.d. setja einangrun á snertifleti húsgagna og einangrun í loft og á veggi.
  • Bæta inniloft – t.d. hafa opna glugga eins og hægt er og hafa eftirlit með loftræstikerfum.
  • Fá kennslu í raddbeitingu.

Tengt efni