is / en / dk

09. Ágúst 2018
05. Júní 2018

Ráðstefna Félags sérkennara á Íslandi haldin í Gerðubergi, fimmtudaginn 9.ágúst 2018.

Dagskrá: 

  • 08.00-.08.30 Kaffi og skráning.
  • 8.30-9.30 Björn Hjálmarsson, barnalæknir fjallar um hinar erfiðu mismunagreiningar milli einhverfu, tengslaröskunar og annarra geðraskana.
  • 9.30-9.50 Kaffi
  • 9.50-12.00 Sigurrós Jóannsdóttir, sálfræðingur hjá Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins, fjallar um nemendur með einhverfu og kvíða
  • 12.00-13.00 Hádegismatur
  • 13.00-14.30 Hrafnhildur Karlsdóttir, einhverfuráðgjafi, fjallar um þjrú einkennasvið einhverfu
  • 14.30-14.50 Kaffi
  • 14.50-16.20 Helga Grurli, kennari í Klettaskóla, kynnir hvernig unnið er með TEACCH hugmyndafræðina í Klettaskóla
  • 16.20-16.30 Samantekt og ráðstefnulok

Gjald fyrir fræðsludag og kaffi: Félagsmenn FÍS kr. 5.000.- Utanfélagsmenn kr. 8.000.- Athugið að ekki verður posi á staðnum, staðgreiða þarf þátttökugjaldið. Félagsmenn KÍ geta sótt um styrk í Vonarsjóð vegna þátttöku á þessari ráðstefnu
Hægt er að kaupa hádegisverð á staðnum
Skráning er á netfangið formadur@vefurinn.is fyrir kl. 12:00 þriðjudaginn 7.ágúst Gefa þarf upp nafn og kennitölu. 

 

Lýsingar á erindum
Björn Hjálmarsson, barnalæknir: "Öflug þverfagleg teymi þarf til þess að greina flókin frávik í taugaþroska hjá börnum og unglingum. Algengi einhverfurófsraskana hefur vaxið. Vanræksla og ofbeldi gagnvart börnum er því miður staðreynd og virðist vera vaxandi vandamál hér á landi samkvæmt tölum frá Barnaverndarstofu. Viðkvæmustu börnin í þeim hópi geta þróað flókin frávik í heilaþroska sem við flokkum sem tengslamyndunarvanda og í alvarlegustu tilvikum tengslaröskun. Sjúkdómsflokkunarkerfin ICD-10 og DSM-V hafa verið gagnrýnd fyrir framsetningu sína á mismunagreiningum milli tengslaröskunar og einhverfurófsraskana. Þau þurfa að útskýra hvernig einhverfurófsröskun getur útilokað tengslaröskun.
Í fyrirlestrinum verður fjallað um hinar erfiðu mismunagreiningar milli einhverfu, tengslaröskunar og annarra geðraskana. Í klínískum störfum er afar erfitt og tímafrekt að greina að erfðaþætti og uppeldisþætti alvarlegra þroskafrávika í heila. Sú staðreynd gerir sterkar siðferðilegar kröfur um nána samvinnu stofnana og á heilbrigðisstarfsfólk um að vanda vel til verka sinna. Breski sálfræðingurinn Heather Moran hefur þróað klínískt mælitæki sem kallast The Coventry Grid til þess að auðvelda fagfólki að greina að einhverfurófs- og tengslaraskanir hjá börnum og unglingum. Það er brýn þörf á því að rannsaka þetta mælitæki, næmi þess og sértæki.
Efla þarf samstarf milli GRR, BUGL, Þroska- og hegðunarstöðvar og barnaverndarnefnda til þess að samræma greiningarferla og tryggja samhljóm í starfi þessara stofnana."

Sigurrós Jóannsdóttir, sálfræðingur hjá Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins: Einhverfa er allskonar og nemendur með einhverfu eru allskonar. Þessir nemendur sem eru með einhverfu þróa því miður oft með sér kvíða og þunglyndi. Í þessu erindi verða ræddar aðferðir sem gætu fyrirbyggt og aðstoðað nemendur með einhverfu og kvíða eða þunglyndi.

Hrafnhildur Karlsdóttir, einhverfuráðgjafi: Í erindinu verður farið stuttlega yfir þrjú einkennasvið einhverfu; Einkenni í félagslegu samspili, einkenni í máli og tjáskiptum og sérkennilega áráttukennda hegðun. Einnig verður tæpt á erfiðri skynúrvinnslu og hvernig hún getur komið fram í skólanum og verið hamlandi fyrir nemandann. Síðan verða kynnar leiðir í skipulagðri kennslu fyrir börn á einhverfurófinu, bæði aðferðir sem henta í sérkennslu þar sem nemandinn fer út úr bekk og inni í bekknum. Þá verður fjallað um mikilvægi þess að aðlaga kennsluumhverfi í skólastofu og á öðrum svæðum í skólanum að þörfum nemanda á einhverfurófi. Þær leiðir henta vel fyrir alla nemendur - í skóla án aðgreiningar.

Helga Gurli Magnússon, kennari í Klettaskóla: Kynnir hvernig unnið er í Klettaskóla út frá TEACCH hugmyndafræðinni. Gott skipulag er lykiatriði í kennslu og þjálfun auk þess sem námið er einstaklingsmiðað.

 

 

Tengt efni