is / en / dk

16. Ágúst 2019
24. Maí 2019

Hlustað á raddir nemenda
Ráðstefna um lýðræðislega kennsluhætti 16. ágúst, kl. 12.30.

Þann 16. ágúst næstkomandi verður haldin hálfsdagsráðstefna á vegum Landakotsskóla, Kvennaskólans í Reykjavík og Þjónustumiðstöðvar Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða um kennsluaðferðir sem miða að því að auka virkni og áhrif nemenda á kennsluhætti. Ráðstefnan er lokaliður í tveggja ára Erasmus+ samstarfsverkefni milli Íslands, Danmerkur og Finnlands sem ber yfirskriftina Raddir nemenda (Students´ Voices). Samstarfsskólarnir eru Ingrid Jespersens Gymnasium í Kaupmannahöfn og Munkkiniemen yhteiskoulu í Helsinki.

Á ráðstefnunni kynnir Dr. Tomas Höjgaard lektor við uppeldis- og menntunarsvið Aarhus Universitet í Kaupmannahöfn rannsóknir sínar á stærðfræðikennslu þar sem hann setur stærðfræði í samhengi við raunveruleika okkar í gegnum líkanasmíð. Dr. Höjgaard er einn þeirra sem mótaði nýja námsskrá í stærðfræði í Danmörku sem nú er unnið eftir með öllum aldurshópum, allt frá yngstu nemendum og til nemenda á framhaldsstigi. Einnig mun Lilja M. Jónsdóttir, lektor við menntavísindasvið HÍ, flytja erindi um lýðræðislegar aðferðir í skólastarfi en hún hefur beitt ákveðnum aðferðum til að auka hlutdeild nemenda í mótun námsefnis. Kennarar þátttökuskólanna munu kynna aðferðir og afurðir af samstarfinu í verkefninu og opnuð verður heimasíða þar sem safnað hefur verið í verkefnabanka. 

Á ráðstefnunni verða í boði vinnustofur um aðferðir sem auka virkni og þátttöku nemenda og lýðræði í skólastarfi. Ráðstefnan, sem er öllum opin og þátttakendum að kostnaðarlausu, verður haldin í Borgarbókasafninu í Grófinni og hefst klukkan 12.30 föstudaginn 16. ágúst nk. 

Skráning fer fram hér.
 

Tengt efni