is / en / dk


Vinnureglur fyrir Vinnudeilusjóð Kennarasambands Íslands, samþykktar á 7. þingi KÍ í apríl 2018

 

1.  NAFN OG LÖGHEIMILI

Sjóðurinn heitir Vinnudeilusjóður Kennarasambands Íslands og er eign þess. Lögheimili hans og varnarþing er í Reykjavík.

 

2.  TILGANGUR

Tilgangur sjóðsins er að styrkja félagsmenn þegar þeir eiga í vinnudeilum og greiða kostnað við vinnudeilur. Sjóðnum er heimilt að taka þátt í lögfræðikostnaði sem hlýst af ágreiningi um túlkun og framkvæmd kjarasamninga eða um sérkjör félagsmanna skv. reglum sem sjóðstjórn setur. Reglur þessar skulu hljóta staðfestingu stjórnar KÍ. Heimilt er sjóðstjórn, með samþykki stjórnar KÍ , að styrkja önnur stéttarfélög sem eiga í vinnudeilum.

 

3.  TEKJUR

Tekjur sjóðsins eru iðgjöld sem ákvarðast og greiðast á sama hátt og félagsgjald. Einnig fjáröflun sjóðsins og framlög frá öðrum stéttarfélögum eða öðrum aðilum.

 

4.  STJÓRN

Stjórn sjóðsins skipa sjö menn og sjö til vara. Stjórn hvers aðildarfélags KÍ tilnefnir, skv. reglum hvers aðildarfélags, einn aðalmann og einn varamann. Stjórn KÍ staðfestir tilnefningar aðildarfélaga. Stjórnin velur sér formann og skiptir að öðru leyti með sér verkum. Falli atkvæði jafnt á stjórnarfundi ræður atkvæði formanns úrslitum.

Hlutverk sjóðstjórnar er að framfylgja því sem fram kemur í 2. gr. um tilgang sjóðsins. Skrifstofa KÍ sér um þjónustu fyrir sjóðinn samkvæmt þjónustusamningi.

 

5.  FJÁRHAGUR OG REIKNINGAR

Sjóðurinn hefur sérstakan fjárhag. Kostnaður af starfi stjórnar og rekstri sjóðsins greiðist úr Vinnudeilusjóði. Reikningsárið er almanaksárið. Reikningar sjóðsins skulu birtir með reikningum KÍ, endurskoðaðir af kjörnum skoðunarmönnum reikninga svo og löggiltum endurskoðanda.

 

6.  GREIÐSLUR ÚR SJÓÐNUM

Félagsmenn sem greiða iðgjald til sjóðsins og verða fyrir tekjumissi eiga rétt á greiðslu úr honum í vinnudeilum. Stjórn sjóðsins skal meta hverju sinni hversu háa styrki skal veita, hvenær styrkgreiðsla skal hefjast, greiðslutímabil og önnur skilyrði. Stjórninni er heimilt að breyta upphæð styrks síðar ef hún telur ástæður og nauðsyn bera til. Meginreglur um úthlutun úr sjóðnum skulu hljóta samþykki stjórnar KÍ. Úthlutunarreglur sjóðsins skulu kynntar fyrir félagsmönnum eigi síðar en við upphaf vinnustöðvunar.

 

7.  LÁNTÖKUR

Stjórn sjóðsins er heimilt að taka lán til að auka ráðstöfunarfé sjóðsins. Lántaka er háð samþykki stjórnar Kennarasambands Íslands.

 

8.  ÁVÖXTUN

Fé sjóðsins skal ávaxta á sem tryggastan hátt og skal stjórnin kappkosta að varðveita verðgildi hans eins og frekast er unnt.

 

9.  SJÓÐURINN LAGÐUR NIÐUR

Hætti sjóðurinn störfum og verði lagður niður færast eignir sjóðsins í félagssjóð KÍ.

 

10. BREYTING Á REGLUM SJÓÐSINS

Reglum þessum má einungis breyta á þingi KÍ og fer með þær breytingar eins og um lagabreytingar væri að ræða.

 

Þannig samþykkt á 7. þingi KÍ í apríl 2018

 

 

Tengt efni