is / en / dk


Vinnureglur fyrir Sjúkrasjóð Kennarasambands Íslands, samþykktar á 7. þingi KÍ í apríl 2018.

 

1.  NAFN OG LÖGHEIMILI

Sjóðurinn heitir Sjúkrasjóður Kennarasambands Íslands og er eign þess. Lögheimili hans og varnarþing er í Reykjavík.

 

2.  HLUTVERK

Hlutverk sjóðsins er:

  1. að veita sjóðfélögum fjárhagsaðstoð vegna veikinda, slysa og dauðsfalla,
  2. að styðja sjóðfélaga vegna endurhæfingar eftir slys eða sjúkdóma,
  3. að styðja sjóðfélaga í fyrirbyggjandi aðgerðum sem snerta öryggi, heilsufar og heilbrigði þeirra.

Nánar skal kveðið á um greiðslur úr sjóðnum í úthlutunarreglum sem sjóðstjórn setur og skulu þær endurskoðaðar eigi sjaldnar en árlega. Úthlutunarreglur skulu hljóta staðfestingu stjórnar KÍ.

 

3.  TEKJUR OG GREIÐSLUR

Tekjur Sjúkrasjóðs eru samningsbundin framlög vinnuveitenda félagsmanna í Kennarasambandi Íslands, svo og vaxtatekjur. Sjóðfélagar teljast þeir sem greitt er fyrir í sjóðinn.

 

4.  STJÓRN

Stjórn sjóðsins skipa sjö menn og sjö til vara. Stjórn hvers aðildarfélags KÍ tilnefnir, skv. reglum hvers aðildarfélags, einn aðalmann og einn varamann. Stjórn KÍ staðfestir tilnefningar aðildarfélaga. Stjórnin velur sér formann og skiptir að öðru leyti með sér verkum. Falli atkvæði jafnt á stjórnarfundi ræður atkvæði formanns úrslitum. Hlutverk sjóðstjórnar er að framfylgja því sem fram kemur í 2. gr. um tilgang sjóðsins. Skrifstofa KÍ sér um þjónustu fyrir sjóðinn samkvæmt þjónustusamningi.

 

5.  FJÁRHAGUR OG REIKNINGAR

Sjóðurinn hefur sérstakan fjárhag. Kostnaður af starfi stjórnar og rekstri sjóðsins greiðist úr Sjúkrasjóði. Reikningsárið er almanaksárið. Reikningar sjóðsins skulu birtir með reikningum KÍ, endurskoðaðir af kjörnum skoðunarmönnum reikninga svo og löggiltum endurskoðanda.

 

6.  ÁVÖXTUN

Fé sjóðsins skal ávaxta á sem tryggastan hátt og skal stjórnin kappkosta að varðveita verðgildi hans eins og frekast er unnt.

 

7.  LAUSN FRÁ GREIÐSLUSKYLDUM

Ef farsóttir geisa getur sjóðstjórn leyst sjóðinn frá greiðsluskyldum sínum um stundarsakir. Einnig getur sjóðstjórn ákveðið að lækka um stundarsakir upphæð dagpeninga og styrkja ef afkomu sjóðsins virðist hætta búin.

 

8.  SJÓÐURINN LAGÐUR NIÐUR

Verði sjóðurinn lagður niður færast eignir sjóðsins í félagssjóð KÍ.

 

9.  BREYTINGAR Á REGLUM SJÓÐSINS

Reglum þessum má einungis breyta á þingi KÍ og fer með þær breytingar eins og um lagabreytingar væri að ræða.

 

Þannig samþykkt á 7. þingi KÍ í apríl 2018

 

 

Tengt efni