is / en / dk

28. Febrúar 2019

Iðulega hafa stjórnvöld það markmið að efla íslenskt skólakerfi. Núverandi ríkisstjórn kynnir í sínum stjórnarsáttmála stórsókn í menntamálum enda lítur hún á menntun sem kjarnann í nýsköpun til framtíðar. Ríkisstjórnin nefnir framhaldsskólann sérstaklega í sáttmálanum og ætlar að tryggja þessu skólastigi „frelsi og fjármagn til eigin stefnumótunar“. Einnig vill hún „kanna kosti sveigjanlegra skólaskila“.

Frumvarp á leið fyrir þing
Nú liggur fyrir frumvarp um breytingar á lögum um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla nr. 87/2008. Markmið með þessum lagabreytingum eru sögð vera þau að búa til sveigjanleika og samfellu fyrir kennara milli skólastiga og fjölga hæfum kennurum og styrkja þannig samkeppnishæfni þjóðar.
 

Eitt leyfisbréf ekki forsenda fyrir sveigjanleika 
Í greinargerð er rakið hvernig fyrirætlan núgildandi laga frá 2008 var að gildissvið leyfisbréfa yrðu „útvíkkuð til aðliggjandi skólastiga þannig að viðkomandi kennari hafi einnig heimild til að kenna ákveðnum aldursflokkum eða á sérsviði sínu“. Ráðuneytið telur hins vegar að markmiðum „um sveigjanleika og samfellu milli skólastiga“ hafi ekki verið náð. (Sjá greinargerð í samráðsgátt). 

Grein 21. í núgildandi lögum fjallar einmitt um gildissvið leyfisbréfa og þar kemur mjög skýrt fram að leyfisbréf kennara á hverju skólastigi veitir fullan rétt til kennslu á aðliggjandi skólastigi að uppfylltum menntunarkröfum. Ráðuneytið hefur meira að segja lýst því til Umboðsmanns Alþingis að engin málefnaleg sjónarmið séu fyrir því að gera „greinarmun á starfsréttindum, ráðningarréttindum eða starfsskyldum“ kennara sem uppfylla 21. grein laganna. Undanþágunefnd á því ekki að þurfa að fjalla um mál kennara sem uppfylla skilyrði til ráðningar og þeir eiga að njóta sömu réttinda til fastráðninga. Í síðustu málsgrein 21. greinar er getið um heimild ráðherra til að setja nánari fyrirmæli um útgáfu leyfisbréfa í reglugerð. Slíkt hefur ekki verið gert og þessi grein laganna hefur hvorki verið virkjuð né útfærð sem ætti að vera hreint formsatriði.

Ef dæmi eru um að full réttindi hafi ekki fylgt ráðningum milli skólastiga er ráðuneyti menntamála í lófa lagið að taka af tvímæli með reglugerð um þessa grein laganna. Sveigjanleikinn og samfellan fyrir kennara milli skólastiga er því greið samkvæmt lögum nú þegar og ekki þörf á einu leyfisbréfi kennara.

Fjölgum kennurum á réttum forsendum
Látið er liggja að því að það að tryggja frjálst flæði kennara milli skólastiga geti stuðlað að því að fjölga kennurum. En það sárvantar kennara inn í skólana, ekki á milli þeirra! Í því liggur vandinn!

Skorturinn er sárastur í leikskólanum. Skoðum hann aðeins: Frá árinu 2009 hafa verið gefin út rúmlega 3000 leyfisbréf til leikskólakennara. Árið 2015 kenndu 1758 af þeim við leikskóla sem er rétt um þriðjungur þeirra sem starfa við kennslu og umönnun á þessu skólastigi (Sjá úttekt Ríkisendurskoðunar). Af hverju starfa þessir 1.250 leikskólakennarar ekki í leikskólum? Formaður Félags leikskólakennara hefur skilað inn greinargerð um eitt leyfisbréf kennara og helstu áhyggjur hans snúa að því að leikskólakennarar muni mögulega vilja leita fyrir sér á öðrum skólastigum (Sjá greinargerð formannsins). Hann óttast sem sagt enn meiri flótta úr stéttinni!

Skorturinn í grunnskólanum er sömuleiðis hrópandi og þá verður sú staðreynd enn nöturlegri að minna en helmingur þeirra, sem hafa menntað sig til grunnskólakennslu, starfar við kennslu í grunnskólum og um 40% starfandi kennara hafa oft hugleitt að hætta kennslu. (Sjá skýrslu)

Eina ástæðan fyrir því að ekki ríkir kennaraskortur í framhaldsskólanum er sú að hann var nú nýverið styttur um eitt ár með tilheyrandi minna námsframboði og uppsögnum kennara. Fjöldi uppsagna þar væri þó mun meiri ef framhaldsskólakennarar væru ekki orðnir gamlir upp til hópa og láta því af störfum. Eftir tvö til þrjú ár verður líklega farið að bera á kennaraskorti þar líka vegna þess að nýliðun er nánast engin.

Formaður KÍ birti nýverið samantekt á efni frumvarpsins á vef Kennarasambands Íslands. Þar bendir hann á að hugsanlegur flótti kennara milli skólastiga, sem eitt leyfisbréf geti leyst úr læðingi, kunni að „afhjúpa veikleika í starfsaðstæðum og kjörum og þrýsta þannig á um umbætur”. Ef staðreyndirnar sem nefndar eru hér fyrir ofan afhjúpa ekki óásættanlegar starfsaðstæður og slæm kjör kennara, hvað gerir það þá? Hvers vegna vill fólk ekki fara í kennaranám? Hvers vegna ræður fólk með kennaranám sig ekki til kennarastarfa? Hvers vegna sækja starfandi kennarar í önnur störf? Það skyldi þó ekki vera að pottur sé brotinn?


Óþarft frumvarp
Það er sem sagt hvorki tilefni né nauðsyn á nýjum lögum. Sveigjanleiki og flæði milli skólastiga er tryggt með lögunum frá 2008 og ný lagasetning mun lítil eða engin áhrif hafa á samkeppnishæfni kennarastarfsins.

Hvers vegna eru starfskjör kennara ekki bætt svo um munar? Ástæðan fyrir kennaraskortinum í landinu er einföld. Kjör og starfsaðstæður stéttarinnar eru ekki samkeppnishæf. Þarna þarf að taka á málum en ekki eyða tíma og fjármunum í leyfismál sem þegar eru í ágætum farvegi.


Sérhæfing kennara er lykilatriði 
Í samantekt sinni kemur formaður KÍ inn á sérhæfðu viðmiðin sem erfitt hefur reynst að ná samstöðu um við undirbúning frumvarpsins. Það er ekki að undra vegna þess að það er einmitt sérhæfingin sem er einn af grundvallarþáttum í starfskenningu hvers kennara.

Fagleg sjálfsmynd kennarans byggist einna helst á sérsviði hans, því sem hann er færastur í. Hvert skólastig miðast við þroska hvers aldurshóps og kennarar hafa löngum sérhæft sig í ákveðnum aldurshópum. Það átta sig allir á því að þriggja ára barn, níu ára barn, 14 ára unglingur og 18 ára ungmenni þurfa gerólíka nálgun og viðfangsefni í sínu námi. Góð menntun byggir á því að fá bestu hugsanlegu kennarana fyrir þetta ólíka fólk.

Lögin frá 2008 viðurkenna þessa sérhæfingu kennara á þremur skólastigum en gefa fullan kost á því að kennarar, sem hafa forsendur til þess, njóti réttinda til að kenna á nærliggjandi skólastigum.
 

Hvernig ætlar þjóðin að mennta börnin sín?
Fram að þessu eru það helst framhaldsskólakennarar sem lýst hafa andstöðu sinni við hugmyndir ráðuneytisins um breyttan lagaramma. Þeir hafa þráfaldlega bent á að núverandi lög búa til greiða leið fyrir flæði kennara til aðliggjandi skólastiga og hafa einnig hvatt ráðuneytið til þess að koma ákvæðum 21. greinarinnar í framkvæmd.

En áhyggjur framhaldsskólakennara núna snúast þó mest um minni og óljósari menntunarkröfur til faggreinakennara. Ef frumvarpið verður að lögum verður hægt að ráða kennara með mun lakari undirbúning til kennslu faggreina í skólum landsins. Kennarar munu ekki lengur þurfa að hafa lokið jafnmörgum einingum til að geta kennt á efri þrepum í framhaldsskóla og til þess að geta kennt grein á fyrsta þrepi í framhaldsskóla. Í því sambandi má nefna að kjarnagreinar á fyrsta þrepi voru við styttingu framhaldsskólans færðar til grunnskólans þar sem kröfur um fagmenntun eru enn minni.

Til þess að meta hæfni kennara er fyrirhugað að stofna sérstakt kennararáð sem heyrir undir Menntamálastofnun. Þá verða lagðar af tvær fjölskipaðar nefndir, undanþágunefnd og matsnefnd. Það færir vald á eina hendi og dregur úr þátttöku og samábyrgð hagaðila eins og háskóla, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands. Er hér verið að ráðast í dýra yfirbyggingu til að skera úr um þau óljósu hæfniviðmið sem sett eru í frumvarpinu? Á það að ná fleiri kennurum til starfa í skólum landsins? Er þetta stórsóknin í menntamálum?
Árið 2014 var birt úttekt á stærðfræðikennslu í níu framhaldsskólum landsins. Niðurstöðurnar vöktu mikla athygli því þær sýndu fram á að framhaldsskólar skiluðu nemendum ekki nægilega undirbúnum til háskólanna. Það sýndi sig að kennarar höfðu oft ekki nægilega menntun til að kenna þessa kjarnagrein en einnig var sýnt fram á að stór hluti nemenda hafði „ekki nægan undirbúning til þess að geta tekist á við venjulega byrjunaráfanga í stærðfræði í framhaldsskólum“ (Sjá má skýrsluna hér).

Sama ár og þessar niðurstöður voru birtar fyrirskipaði þáverandi menntamálaráðherra styttingu námstíma til stúdentsprófs og færði byrjunaráfanga í stærðfræði til grunnskólanna þar sem kennarar með stærðfræðimenntun eru enn þá færri! Stórsókn í menntamálum?

Hvert ætlar þjóðin sér í skólamálum? Þessu þarf að svara skilmerkilega áður en ákvarðanir eru teknar sem fela í sér meiriháttar stefnubreytingu og hættu á sjálfsmarki áður en lagt er upp í stórsóknina. Ætli unga fólkið okkar keppist um kennarastarfið í framtíðinni?
 

Samantekt
Frumvarpið sem nú er verið að undirbúa fyrir vorþing er bæði óþarft og til óþurftar. Kennarar geta nú þegar kennt á öðru skólastigi en þeir hafa leyfisbréf fyrir með fullum starfsréttindum og þær breytingar sem frumvarpið boðar gera heldur ekkert til þess að laga atgervisflóttann úr kennarastéttinni sem er brýnasta verkefnið í menntamálum þjóðarinnar. Ákvæði í frumvarpsdrögunum um menntun og hæfni kennara verða beinlínis til þess að gjaldfella menntun í landinu og bera í sér grundvallar stefnubreytingu í menntamálum þjóðarinnar.
Stjórnvöld hafa boðað stórsókn í menntamálum, framfarir, nýsköpun og þróun. Slík sókn ætti að fela í sér metnað til þess að efla kennara í starfi, styðja á allan hátt við starfsþróun og alvöru samkeppni um vel menntað og hæft fólk í kennslu allra greina. Í staðinn bendir frumvarpið til þess að ekki verði gripið til alvöru aðgerða til að spyrna við kennaraskorti og að kröfur um fagmenntun verði minnkaðar. Slíkt getur ekki skoðast öðruvísi en meiriháttar stefnubreyting í menntamálum sem gengur í berhögg við fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar.
 

Samráðsgáttin er opin
Nú þurfa kennarar, kennarafélög, faggreinafélög, stjórnendur og allir sem láta sig málið varða að láta álit sitt á þessum hugmyndum í ljós inni á samráðsgáttinni. Opið er fyrir athugasemdir til 8. mars.

Guðjón H. Hauksson,
framhaldsskólakennari og varaformaður Félags framhaldsskólakennara.

Styttri útgáfa af greininni var birt á Vísi, 28. febrúar 2019. 


Gagnlegt ítarefni

 

Tengt efni