is / en / dk

09. Maí 2019

Eftir því sem skólaganga almennings á Íslandi hefur lengst hefur verið hugað sífellt meira að menntun kennara. Upphaf formlegrar kennaramenntunar hér á landi má rekja næstum 150 ár aftur í tímann og tengist beint baráttu fyrir almenningsmenntun í landinu. Fyrst voru stofnaðir barnaskólar í bæjum og þorpum og jafnframt komið á formlegri kennaramenntun. Að auki þróuðust farskólar um landið og höfðu þeir sem í þeim kenndu hlotið styttri menntun. Þegar skólagangan lengdist og framhaldsskólinn varð til eins og við þekkjum hann, var farið að huga sérstaklega að menntun framhaldsskólakennara. Sömu sögu má segja um fjölgun leikskóla og breytt viðhorf til þeirra. Þegar leikskóli var formlega skilgreindur sem fyrsta skólastigið og leikskólaganga ungra barna varð almenn, jókst menntun leikskólakennara einnig.

Yfirgripsmikil viðfangsefni
Með þessum breytingum koma fram auknar kröfur til kennara og viðfangsefnin sem þeim er ætlað að leysa verða sífellt yfirgripsmeiri og margþættari. Kennaramenntun þarf hvort tveggja að vera alþjóðleg og þjóðleg. Við viljum að hún taki mið af fræðilegum og alþjóðlegum viðmiðum og tengist um leið sögu, menningu, tungumáli og þjóðfélagsbreytingum. Kennarar þurfa að hafa mikla kunnáttu í sinni kennslugrein og á sínum kennslusviðum auk annarrar margs konar kunnáttu sem tengist mismunandi aldri og þroska nemenda. Þeir eiga að geta brugðist við fjölbreyttum áskorunum, alltaf með hag nemandans að leiðarljósi. Þeir eiga að stuðla að frjórri hugsun nemenda, efla sjálfstæð vinnubrögð og samstarf við aðra. Einnig þurfa þeir að geta beitt ólíkum kennsluaðferðum, mismunandi kennslutækni og vinna að námsefnisgerð að ógleymdu námsmati og endurgjöf til nemenda.
Starfsumhverfi sem mætir kennaranemum og nýútskrifuðum kennurum í skólunum um þessar mundir er krefjandi. Því miður hefur nýliðun ekki verið sem skyldi og næstum einn þriðji hluti þeirra sem hefja kennslu hætta því á fyrstu tveimur árum í starfi. Helstu ástæður eru lág laun og álag í starfi og sú er staðan nú að um fjögur þúsund menntaðir kennarar sinna öðrum störfum í samfélaginu. 

Aðgerðir til að fjölga kennurum
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er lögð rík áhersla á að efla menntun í landinu. Í byrjun mars 2019 kynnti mennta- og menningarmálaráðherra Lilja Dögg Alfreðsdóttir aðgerðir sínar í menntamálum sem eru til þess ætlaðar að fjölga kennurum en megintillagan snýr að launuðu starfsnámi á síðasta ári náms fyrir leik- og grunnskólakennara. Þessum kennaranemum er svo ætlað að njóta leiðsagnar reynds kennara á vettvangi. Til þess að sem best verði tekið á móti kennaranemum á einnig að fjölga kennurum sem hafa sérhæft sig í leiðsögn í íslenskum skólum. Með þessum tillögum standa vonir til að fækka þeim kennurum sem hverfa til annarra starfa á fyrstu árum í kennslu verulega og fjölga kennurum sem hafa sérhæfingu í starfstengdri leiðsögn. Tillögurnar miða að því að fjölga leiðsagnarkennurum um 30 á ári á næstu fimm árum. Ljóst er þó að þess verður nokkuð langt að bíða að allir leik- og grunnskólar státi af einum slíkum því samtals eru skólar á þessu skólastigi vel á fjórða hundrað.

Fjármunir og reglufesta
Allt eru þetta skref í góða átt en ekki nægilega stór skref þó. Til þess að nýtt starfsnámsár kennara verði til framfara þarf að tryggja skólum fjármuni og markvissan stuðning til að skipuleggja leiðsögn nýliða og stuðning við annað fagfólk. Þá er ekki síður mikilvægt að skilgreina starfsnám þeirra í lögum eða reglugerð og sömuleiðis starf leiðsagnarkennara. Sú leið hefur verið farin t.d. í Noregi. Árið 2017 gaf norska menntamálaráðuneytið út stefnu um menntun kennara til ársins 2025. Einn liður í því að koma þeirri stefnu á er reglugerð um leiðsögn við nýútskrifaða kennara sem kom út í september síðastliðnum. Með því taka menntamálayfirvöld á sig skuldbindandi hlutverk í mótun menntastefnu og festa í reglur rétt nýrra kennara til að fá leiðsögn. Í reglugerðinni er dregið fram að kennari verði aldrei nema að hluta búinn undir starf sitt með háskólanámi og því sé leiðsögn mjög mikilvæg fyrir nýja kennara, ekki aðeins til að taka skrefið úr námi yfir í starf heldur einnig til aðlögunar í lærdómssamfélagi vinnustaðarins.
Það mætti hugsa sér að ábyrgð leiðsagnarkennara væri skilgreind á svipaðan hátt og ábyrgð lækna á nemum í þeirra umsjá, sbr. 14. grein reglugerðar um menntun, réttindi og skyldur lækna (Reglugerð nr. 467/2015 með áorðnum breytingum) að þeir beri ábyrgð á því að nemar sem starfa undir þeirra stjórn fái næga hæfni og þekkingu og einnig leiðbeiningar til að inna af hendi þau störf sem þeim eru falin.

Leiðsögn við nýliða
Skipulögð leiðsögn við nýliða og stuðningur við annað fagfólk í skólum þarf að vera formlegur hluti af heildstæðri menntun og starfsþróun alla starfsævina. Í rannsókn Maríu Steingrímsdóttur sem birt var í Netlu 2018 og ber nafnið Mat nýliða á gagnsemi leiðsagnar í starfi kennara kemur í ljós að leiðsögn við nýliða hefur áhrif á starfshætti og líðan nýja kennarans og máli skipti að leiðsagnarkennarar hafi svipaðan faglegan grunn og nýliðinn og að sú leiðsögn væri með reglulegu millibili. Niðurstöður Andra Rafns Ottesen og Ingólfs Ásgeirs Jóhannessonar í greininni Eftirsóttasti minnihlutahópurinn sem birtist í Netlu nú í mars benda í sömu átt.

Ráðgjöf og stuðningur
Mikill ávinningur gæti orðið fyrir skólastarf af því að skilgreina sérstakt hlutverk leiðsagnarkennara sem myndi leiða til öflugra lærdómssamfélags inni í skólunum. Leggja þarf áherslu á að leiðsögnin verði sérstaklega skilgreint starf eða starfshluti. Því er nauðsynlegt að formgera starfsheiti leiðsagnarkennarans sérstaklega. Hann yrði þá í raun faglegur leiðtogi kennara í skólanum og þangað gætu kennaranemar, nýir kennarar og hugsanlega einnig aðrir leitað eftir ráðgjöf.
Hlutverk leiðsagnarkennara tengt starfsnámsnemum gæti falist í fjölbreyttum stuðningi og undirbúningi kennslu, kennsluáætlanagerð, stuðningi í kennslunni sjálfri, ígrundun með kennaranemum og nýliðum almennt í skólastarfinu og ekki síst þeim sem reyndari eru. Stuðningur og endurgjöf eru mikilvægir þættir sem ekki hefur tekist að þróa nægilega vel í skólastarfi á Íslandi og þarna gæti sannarlega verið vettvangur til slíkrar framþróunar.
Ein af meginstoðum hverrar þjóðar er öflugt menntakerfi. Sameiginlegt verkefni skólasamfélagsins og menntamálayfirvalda er að búa svo um hnútana að vel sé tekið á móti kennaranemum og nýjum kennurum. Þannig eiga þeir auðveldara með að ná tökum á viðfangsefnum sínum og farnast betur í starfi. Þá er ekki síður mikilvægt fyrir þá sem starfað hafa lengur í skólunum að geta fengið ráðgjöf og handleiðslu við störf sín. Því er afar mikilvægt að starf leiðsagnarkennara verði skilgreint sérstaklega á öllum skólastigum og fjármagnað svo að allir kennarar geti sótt sér leiðsögn og handleiðslu námi og kennslu til heilla.

 

Anna María Gunnarsdóttir, varaformaður Kennarasambands Íslands. 

Greinin birtist í Skólavörðunni 1. tbl. 2019

 

 

 

Tengt efni