is / en / dk

25. Apríl 2014

 

 
 

Aðalfundir Félags leikskólakennara (FL) og Félags stjórnenda í leikskólum (FSL) voru settir á Hótel Örk í Hveragerði í morgun. Um eitt hundrað fulltrúar félaganna sitja aðalfundina.

Formönnum félaganna var báðum tíðrætt um stöðu kjaramála í sínum setningarræðum. „Við ætlum okkur að stíga fleiri skref í átt að markmiðum okkar í komandi kjarasamningum. Stóra markmiðið okkar er að komast á þann stað að nemi sem stendur á krossgötum velji það skólastig sem hann kemur til með að kenna á eftir áhuga á aldri nemenda en ekki eftir launum og starfskjörum,“ sagði Haraldur Freyr Gíslason, formaður FL, í ræðu sinni. 

Haraldur talaði í framhaldi um nýgerðan kjarasamning Félags framhaldsskólakennara og Félags stjórnenda í framhaldsskólum, og benti á að samningurinn innihéldi meiri hækkanir en þau 2,8% sem samið var um á almennum markaði.
„Góður kjarasamningur Félags framhaldsskólakennara verður sá grunnur sem samninganefnd FL mun horfa til í komandi viðræðum. Við erum hins vegar samstiga og hörð á þeirri kröfu okkar að stíga þar stór skref og leiðrétta launamun leikskólakennara og annarra sérfræðinga.“. 

Ingibjörg Kristleifsdóttir, formaður FSL, sagði stöðuna þannig að semja þurfi um tugi prósenta launahækkun fyrir félagsmenn, „ef við ætlum að semja um sambærilegar launahækkanir og framhaldsskólakennarar og stjórnendur í framhaldsskólum hafa náð fram og til þess að ná launaþróun Félags leikskólakennara,“ sagði Ingibjörg og lagði áherslu á að þó að FSL hefði ekki verkfallsvopn hefðu þau fagmennskuna og þann styrk sem felst í þekkingu á því hvernig leikskólastarfi er best háttað. 

Ingibjörg gerði líka átakið Framtíðarstarfið að umtalsefni en því er ætlað að fjölga nemendum sem leggja leikskólakennaranám fyrir sig. Ingibjörg sagði slæmt til þess að hugsa hversu fáir útskrifast sem leikskólakennarar í vor. „Þessir fáu sem útskrifast verða hetjurnar okkar og við vitum að botninum er náð og leiðin verður bara upp á við núna því við ætlum aftur til framtíðar,“ sagði Ingibjörg Kristleifsdóttir, formaður FSL.
 

Tengt efni