is / en / dk

29. Apríl 2015

Skipa á þriggja manna nefnd til að vinna næstu tíu árin að því að bæta ímynd kennara að mati almannatengils. Nefndin þyrfti að njóta fullkomins trausts og geta ráðstafað um 50 milljónum á ári.

Ársfundur Kennarasambandsins var haldinn á Grand Hótel Reykjavík föstudaginn 17. apríl síðastliðinn. Yfirskrift fundarins að þessu sinni var „Ímynd og orðræða kennara“. Vegna umræðuefnisins var leitað til eins reyndasta almannatengils landsins, Gunnars Steins Pálssonar, og hann fenginn til að ræða ímynd kennara.

„Þegar ég var að undirbúa þetta erindi spurði ég marga hvort kennsla væri ekki örugglega mikilvægasta starf í heimi. Ég hef engan heyrt segja: „Nei, er það ekki læknirinn?“ eða eitthvað slíkt. Þannig að þið eruð þar. Þið vinnið mikilvægasta starf í heimi og þar af leiðandi leyfði ég mér að skíra þennan fyrirlestur „virðing að verðleikum“ því ég er upptekinn af því að kennarinn sæki sér hana, bæði fyrir sjálfan sig og frá samfélaginu,“ sagði Gunnar Steinn í erindi sem hann hélt á ársfundi KÍ. „Ég met ímynd kennara þannig að hún sé jákvæð meðal foreldra og almennings. Krökkunum líður vel í skólunum og foreldrar eru kennurum þakklátir og almenningur treystir þeim. Mér finnst líka gamla sagan um þrautpínda kennarann sem ræður ekkert við krakkaskarann vera á undanhaldi.“

Styrkur og veikleikar

„Helstu veikleikarnir blasa auðvitað við. Kjörin og álagið eru einn, en líka samkeppnishæfnin við samanburðarlöndin. Það er veikleiki að kennarastéttin, a.m.k. í grunn- og leikskólum, er áberandi kvennastétt. Auðvitað eru konurnar ekki slæmar, en þetta er samt sem áður veikleikamerki og ég veit að þið vitið þetta öll. Það ríkir líka ákveðin vorkunnsemi í garð kennara. Foreldrar eru þakklátir og þeim þykir vænt um kennarann, en þeir finna oft á tíðum svolítið til með honum að þurfa að standa í þessu öllu,“ sagði Gunnar Steinn um leið og hann bætti því við að hann væri aðeins að meta stöðuna eins og hún blasti við honum. „Ég held að helstu ógnirnar sem kennarar standa frammi fyrir séu atgervisflótti, ófullnægjandi nýliðun, hugsanleg spennitreyja út af fjársvelti til frambúðar og það að kennarar gætu lent í því að verða blórabögglar fyrir hnignandi menntunarstig þjóðarinnar.“

Gunnar Steinn segir góðu fréttirnar þær að fullt sé af tækifærum. „Þau eru meðal annars fólgin í fræðslu og hvatningu, bæði innanhúss gagnvart kennurunum og út á við. Það eru tækifæri til að lyfta upp skólanum og þýðingu hans fyrir framtíð samfélagsins. Það eru tækifæri í samstarfi við háskólaumhverfið í gæðakerfum og gæðamati, en líka í öflugri þátttöku kennara í skólapólitískri umræðu. Þess vegna held ég að við ættum að búa til 100 manna herinn sem er þjálfaður í að vera málsvari kennara – og kannski er hann hérna inni að einhverju leyti. Svo eigum við að hampa stjörnunum í kennarastéttinni og koma þeim markvisst á framfæri. Þær eru víða. Ég vil fjölga Höllunum í Botnleðjunum sem eru að brillera, þó það viti engir nema örfáir foreldrar hvað þeir gera innan veggja skólans. Verkefnið ykkar er síðan að tryggja farsæla nýliðun í kennarastéttinni en það gerist ekki nema með því að bæta kjör og aðbúnað kennara. Það þarf líka að efla samstarf kennaranna innbyrðis, sem og sjálfsmynd kennaranna. Það þarf að bæta kennaranámið og kennsluna og koma íslenska menntakerfinu aftur í fremstu röð bæði hérlendis og á alþjóðavísu.

Og ég ætla að dvelja aðeins við virðinguna. Hún er lykilatriði í mínum huga og hún kemur ekki af sjálfu sér. Kennarinn ber ekki almennilega virðingu fyrir sjálfum sér og þar byrjar þetta allt. Við þurfum sem sagt að byrja á okkur sjálfum. En þar erum við ekki á upphafsreit því fólkið í landinu segir að af öllum stéttum treysti það kennurum einna best. Aðeins læknar og hjúkrunarfræðingar njóta meira trausts. Það er býsna gott.“
 

Kennarinn þinn
Í miðjum fyrirlestri varpaði Gunnar Steinn öllum að óvörum upp glæru sem á stóð „Mjólk er góð“.

„Hvað er þetta að gera þarna annað en að gefa mér tækifæri til að grobba mig af því að ég bjó slagorðið til fyrir Mjólkurdagsnefnd fyrir svona 25 til 30 árum?“ spurði hann fundarmenn og uppskar hlátur viðstaddra. „Ég var þá orðinn svolítið þekktur fyrir að gera góð slagorð. Svo kom ég með þetta, „Mjólk er góð“, og þeim fannst nánast eins og þeir hefðu verið kokkálaðir. En það er oft erfitt að finna þetta augljósa og einfalda“.

Gunnar Steinn sagði að mikilvægt væri fyrir kennara að hefja markvissa vinnu við að bæta ímynd sína. „Eitt af því sem ég ætla að gera í þessum fyrirlestri er að gefa ykkur slagorð. Það er afar einfalt. Í staðinn fyrir að kynningarstarfið sé unnið undir merkjum Kennarasambands Íslands, Félags framhaldsskólakennara, eða einhverra skammstafana þá fer allt þetta starf fram undir merkinu „Kennarinn þinn“ af því að þar er öll væntumþykjan. Ekki bara hjá nemendanum gagnvart kennaranum sínum, heldur líka gömlu nemendunum sem ennþá dýrka gömlu kennarana sína. Svo kemur þetta við foreldrana, og þar af leiðandi við samfélagið í heild. Þú sem kennari ert „Kennarinn minn“ þó þú sért ekki að kenna börnunum mínum.“
Í þessu kynningarstarfi væri mikilvægt að virkja alla kennara. Skólar væru með opið hús á degi kennarans, búin væru til hvatningarverðlaun, kennarar skrifuðu greinar, tryggt væri að fjölmiðlar fjölluðu um skóla, búnar væru til auglýsingar o.s.frv.

„Og svo kemur hér ein hugmynd sem er alveg uppáhalds. Mér finnst þetta svo flott hjá mér að ég get ekki staðið kyrr. Síðast í gær heyrði ég um rafrænan dauða íslenskunnar. „Kennarinn þinn“, hann verður að skipta sér af þessu. Hann getur fengið hvern sem er til að vinna með sér, hvort sem það er fólk úr atvinnulífinu, fjölmiðlunum eða annars staðar frá. Það væru allir til í að leyfa kennaranum að vera með í að hlúa að íslenskunni, þessari langdýrmætustu menningararfleifð sem þjóðin á. Það býr til ímynd af kennurunum sem er langt umfram tungumálið. Það býr til þennan ómissandi stólpa í íslensku samfélagi sem kennarinn er.“
 

Langhlaup
Gunnar Steinn sagði að ef kennarar ætluðu að snúa vörn í sókn, þá væri framundan langt hlaup sem kosta myndi mikla peninga. „Þarna ætla ég að segja ykkur að ég er búinn að vinna fyrir fjölmörg félagasamtök eins og ykkur, en sú vinna hefur aldrei staðið lengur en svona hálft til eitt ár. Þá springur samstarfið alltaf, því að lýðræðið vill alltaf hafa rétt fyrir sér, en hefur það sjaldnast þegar kynningarmál eru annars vegar. Ástæðan er að það hafa allir ólíka skoðun á því hvað á að gera og svo kemst lýðræðið að einhverri samsuðu sem er ekki neitt. Þetta er eins og þegar ég hanna logo fyrir fyrirtæki og hver og einn vill hafa sinn lit. Ef ég myndi hlusta á alla þá yrðu öll merki á Íslandi brún af því að þannig litur kemur út úr lýðræðinu.“

Tillaga hans er því að setja á laggirnar þriggja manna nefnd, sem hefði formann sem nyti víðtæks trausts kennara á öllum skólastigum. „Þessi formaður þarf að vera einhver í líkingu við Vigdísi Finnbogadóttur, einhver sem er alveg hafinn yfir alla gagnrýni. Hann stýrir starfi nefndarinnar sem svo vinnur með kynningarfulltrúum hjá Kennarasambandinu, ráðgjöfum eða hverjum sem nefndin vill hafa sér til aðstoðar. Nefndin hefur algert sjálfstæði í viðfangsefnum og efnistökum. Hún þarf ekki að spyrja neinn, ekki stjórn Kennarasambandsins eða nokkurn annan. Hún þarf hins vegar að mæla árangur og einu sinni á ári þarf hún að gera á því könnun hjá kennurunum hvernig þeim finnist hafa tekist til. Þið eruð ekki að fara í átak. Þið eruð að fara í að breyta lífsstíl. En það þarf að setja í þetta mikla peninga sem kæmu að hluta frá ykkur en að hluta frá samstarfsaðilum, t.d. fyrirtækjum. Ég er að tala um svona 50 milljónir á ári næstu 10 ár. Og þarna ætla ég að stoppa því þetta er auðvitað skandall... takk fyrir.“
 

Greinin birtist í Skólavörðunni, tímariti Kennarasambands Íslands. Lestu tímaritið hér. 

 

Skólavarðan í Apple-Store Skólavarðan í Google Play Skólavarðan á netinu

 

Tengt efni