is / en / dk

30. Júní 2015

„Við Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands eru uppi áhyggjur að styttra nám til stúdentsprófs leiði til þess að erfiðara verði fyrir nemendur að öðlast nægan undirbúning fyrir háskólanám í verkfræði og raunvísindum." Svo hljóðar inntak ályktunar Deildarráðs Raunvísindadeildar Háskóla Íslands um styttingu framhaldsskólanámsi. 

Deildarráðið segir góðan undirbúning í stærðfræði, sem sé undirstöðugrein í öllu háskólanámi í verkfræði og náttúruvísindum, afar mikilvægan. Við HÍ sé nú miðað við að nýnemar í þessum greinum hafi lokið sjö til átta anna námi í stærðfræði. Stytting náms til stúdentsprófs geti gert nemendum erfiðara um vik að undirbúa sig fyrir háskólanám í þessum greinum og „afleiðingarnar yrðu skertir möguleikar í námsvali, þar sem inntökuskilyrði í grunnnám við deildir á Verkfræði- og náttúruvísindasviði haldast óbreytt," eins og segir orðrétt í ályktuninni.

Þá minnir Deildarráðið á að þegar samanburður er gerður á fjölda námsdaga í þriggja ára framhaldsskólanámi á Norðurlöndunum virðist fyrirhugaður fjöldi námsdaga hérlendis minni en sem nemur allt að tæpri önn þar sem munurinn er mestur. 

Deildarráðið skorar á yfirvöld menntamála og skólastjórnendur að leita allra leiða til að tryggja að stúdentspróf í nýju umhverfi veiti enn góðan undirbúning fyrir háskólanám í verkfræði og náttúruvísindum. „Jafnframt styður Deildarráð Raunvísindadeildar viðleitni þeirra framhaldsskóla sem vilja halda áfram að bjóða fjögurra ára nám til stúdentsprófs, meðal annars með áherslu á kennslu raungreina."

Ályktunin í heild. 

 

Tengt efni