is / en / dk

10. Desember 2018

Sprotasjóður auglýsti um helgina eftir umsóknum um styrki úr Sprotasjóði leik-, grunn- og framhaldsskóla vegna næsta skólaárs. Áherslusviðin eru þrjú og ber þar fyrst að nefna eflingu íslenskrar tungu, þá lærdómssamfélag í samvinnu innan eða milli kerfa og að lokum færni til framtíðar. 

Kennarasamband Íslands fagnar þessum áherslum og þá sérstaklega að verkefni sem styrkja tungumálið, efla orðaforða og hugtakaskilning séu á listanum. Þær áherslur eru í takti við viljayfirlýsingu Kennarasambandsins og fleiri aðila í haust um að staðið verði að vitundarvakningu um mikilvægi íslensks máls. 

Anna María Gunnarsdóttir, varaformaður KÍ, á sæti í stjórn Sprotasjóðs og hún er að vonum ánægð með vinnu sjóðsins: „Ég fagna áherslum Sprotasjóðs fyrir næsta skólaár. Við hjá Kennarasambandi Íslands höfum haldið þessu máli á lofti í haust og ekki síst vegna þess að kennarar eru í lykilhlutverki varðandi máltöku barna og það er samfélagsleg skylda okkar að standa vörð um móðurmálið. Einnig hlakka ég til að sjá verkefni sem tengjast lærdómssamfélagi í samvinnu innan eða milli kerfa og tengist það úttekt á Menntun fyrir alla. Síðast en ekki síst eru það verkefni sem efla samskiptahæfni, skapandi hugsun og list-, verk- og tækniþekkingu. Þá vil ég benda á að sérstaklega verður litið til þess í ár ef verkefnin fela í sér samvinnu. Það gæti bæði átt við samvinnu eins eða fleiri skóla og milli kerfa, t.d. skóla og félags- eða heilbrigðisþjónustu. Ég hvet kennara til að sækja um styrki enda verða til úthlutunar allt að 59 milljónir króna. Opið er fyrir umsóknir til 1. mars 2019.“

 

Auglýsing um úthlutun úr Sprotasjóði fyrir skólaárið 2019-2020.
Frétt um vitundarvakningu KÍ.
Um Sprotasjóð.

 

Tengt efni