is / en / dk

Um þriðjungur kennara þjáist af mikilli streitu og/eða kulnun. Þetta kemur fram í niðurstöðum alþjóðlegra rannsókna sem hafa verið gerðar á heilsufari og líðan kennara. Niðurstöður ýmissa rannsókna benda einnig til þess að langvarandi streita leiði til líkamlegra einkenna og kulnunar þegar fram í sækir. Íslenskar rannsóknir sýna fram á svipaða stöðu. Í rannsókn Gallup og Vinnueftirlitsins frá árinu 2002 sögðust 27% starfsmanna á Íslandi búa við vinnustreitu og 42% sögðust hafa of mikið að gera í vinnunni. Í rannsókn á heilsufari, líðan og vinnuumhverfi grunnskólakennara árið 2003 voru um 11% þátttakenda líkamlega úrvinda eftir vinnudaginn og rúmlega fjórðungur (27%) taldi sig sjaldan eða aldrei geta ráðið vinnuhraða sínum. Þá sögðust 59% framhaldsskólakennara finna fyrir streitu í starfi í rannsókn frá 2012.
 

Vinnustreita er ástand eða tilfinning sem einstaklingur upplifir þegar kröfurnar í vinnuumhverfinu eru meiri en einstaklingnum finnst hann geta ráðið við.

Kulnun er samsafn einkenna sem benda til þess að viðkomandi hafi lengi glímt við of mikla streitu í starfi og sú streita sé nú farin að hafa alvarleg áhrif á heilsufar, vinnugleði og líðan.

 • Slæm/erfið samskipti
 • Óljós starfshlutverk
 • Lítið sjálfræði
 • Erfiðleikar í einkalífi
 • Langur vinnutími
 • Miklar kröfur og álag
 • Lélegt vinnuskipulag
 • Neikvætt andrúmsloft
 • Takmörkuð starfsþróun

Fyrir vinnustaðinn getur of mikið álag meðal annars leitt til aukinna fjarvista, meiri starfsmannaveltu, verri árangurs, óánægju þeirra sem njóta þjónustu hans (sbr. barna og foreldra), erfiðari samskipta og verri starfsanda og verri ímyndar.

Fyrir starfsmanninn geta afleiðingar álags og streitu verið til dæmis einbeitingarskortur, verkkvíði, pirringur, þreyta og svefntruflanir. Auk þess geta komið fram ýmis líkamleg einkenni eins og bak- og meltingarvandamál, magasár, háþrýstingur og veikt ónæmiskerfi.

Því er mikilvægt að álags- og streitustjórnun sé sinnt á vinnustaðnum. Ekki má einblína á lausnir sem einstaklingurinn þarf að sinna heldur verður einnig að hugsa um vinnustaðinn sjálfan og skipulag hans. Þannig má draga úr líkum á að starfsfólk upplifi streitu og álag í vinnunni.

Fyrst af öllu þarf að átta sig á hvaða þættir í vinnuumhverfinu eða skipulaginu valda álagi og til þess má nota vinnuumhverfisvísi um félagslegan og andlegan aðbúnað á vinnustað. Auk þess er hægt að spyrja starfsfólk um líðan í vinnu. Ekki er ráðlegt að spyrja beint hvort viðkomandi sé „stressuð/-aður“ heldur frekar að leita eftir þáttum í starfinu og umhverfinu sem valda álagi. Til dæmis biðja starfsfólk um að taka fram jákvæða og neikvæða þætti vinnunnar, spyrja um álag, athafnafrelsi, samskipti, vinnutilhögun, stuðning og stjórnun ásamt samspili vinnu og einkalífs. Að lokum má fylgjast með veikindafjarvistum, starfsmannaveltu, frammistöðu, slysum og mistökum og reyna að sjá og skýra mynstur og breytingar.

Eftir að hafa greint stöðuna þarf að auka meðvitund og umræðu um streitu ásamt því að koma á margþættum aðgerðum. Áhersla á fyrirbyggjandi aðgerðir er æskilegri til að koma í veg fyrir neikvæðar afleiðingar streitu frekar en að bregðast aðeins við þeim aðstæðum sem eru komnar upp.

Embætti landlæknis og Vinnueftirlit mæla með eftirfarandi aðgerðum til að lágmarka streitu á vinnustöðum:

 • Gera breytingar á skipulagi vinnunnar
 • Aðlaga kröfur að fólkinu sem vinnur störfin.
 • Sjá til þess að starfsfólk hafi næga þekkingu og færni, t.d. með vali á starfsfólki, nýliðafræðslu, vandaðri verkstjórn og hlusta eftir ábendingum starfsfólks.
 • Veita starfsfólki meiri sjálfsstjórn, t.d. með sveigjanlegum vinnutíma, deila verkum og ræða saman um betri vinnuaðferðir.
 • Veita starfsfólki stuðning, hvetja til samvinnu og meiri samskipta milli starfsfólks.
 • Þjálfun í streitustjórnun – bjóða upp á fræðslu um einkenni og afleiðingar streitu og hafa námskeið t.d. í slökun, tímastjórnun og markmiðasetningu. Styðja fólk til að stunda hreyfingu.
 • Vinnuvistfræðilegir þættir – bæta aðbúnað, s.s. draga úr hávaða, tryggja gott inniloft, bæta búnað (t.d. stóla, borð og tækjabúnað) og draga úr óvæntum truflunum.
 • Þjálfun stjórnenda og fræðsla um streitu og í leiðtoga – og samskiptafærni ásamt því hvernig megi leysa úr ágreiningi á árangursríkan hátt.
 • Þróun vinnustaðarins
 • Taka upp betri vinnuferla og stjórnunarhætti.
 • Byggja upp vinnustaðamenningu sem er vinsamleg, hvetjandi og styðjandi.
 • Virkja starfsmenn í að finna leiðir til að ná þeim árangri sem stefnt var að.

Mikilvægt er að stjórnendur gefi starfsmönnum sem glíma við sérstaklega mikið álag eða erfiðleika, í vinnu eða einkalífi, kost á að fá ráðgjöf hjá fagaðilum. Í slíkum tilfellum er m.a. hægt að benda á Sjúkrasjóð KÍ sem styrkir kennara og stjórnendur til að sækja sér aðstoð ýmissa fagaðila (sjá nánar úthlutunarreglur sjúkrasjóðs http://ki.is/styrkir-og-sjodir/sjukrastjodur/styrkir).
Mikilvægt er að hafa skýrt verklag um hvernig bregðast skuli við slíkum aðstæðum. Of algengt er að starfsfólk fái mismikinn stuðning eftir því t.d. hvort álagið leiðir til andlegra eða líkamlegra veikinda. Starfsmaður sem fær brjósklos á í flestum tilfellum auðvelt með að fá greiningu á sínum vanda, fara í veikindaleyfi og skilning frá vinnufélögum þegar hann kemur til baka. Því miður er slíkt ekki alltaf tilfellið þegar um er að ræða andlega kvilla, t.d. þunglyndi. Forðast skal að mismuna fólki eftir sjúkdómum og veita sams konar stuðning í öllum tilfellum.

Til að takast á við streitu eða kulnun þarf hver einstaklingur að þekkja sína streituvalda og leita leiða til að koma sér úr ástandinu, takast á við streituvaldana og/eða vinna í að breyta viðhorfi sínu, svo aðstæðurnar endurtaki sig ekki. Hér eru nokkrar ráðleggingar:

 • Skipulegðu þig
 • Skipuleggðu verkefni - og pásur líka!
 • Forgangsraðaðu
 • Gerðu það sem þú getur gert og er mikilvægt – slepptu öðru!
 • Lærðu tímastjórnun
 • Nýttu samstarfsfólkið
 • Samstarfsfélagar og stjórnendur geta bæði hlustað og gefið þér ráð og stuðning. Stjórnendur eru auk þess lykilaðilar þegar kemur að því að gera breytingar á störfum og/eða starfsaðstæðum gerist þess þörf.
 • Samstarfsfólkið getur auk þess verið frábær uppspretta vinnugleði. Tökum þátt í skemmtilegum viðburðum í starfsmannahópnum og spjöllum um jákvæða og skemmtilega hluti sem fá okkur til að brosa.
 • Leitaðu leiða sem henta þér til að losa um streitu – slökun og hvíld, núvitund, regluleg hreyfing, vinna í að breyta hugfari eða viðhorfi, vönduð samskipti og að gefa af sér eru dæmi um mögulegar leiðir. 

Fræðslumyndbönd KÍ er að finna á vef sambandsins. Þau eru: 

 • Kulnun og streita
 • Samskipti á vinnustað – góður vinnufélagi
 • Persónusjálf og faglegt sjálf
 • Erfiðar aðstæður og erfiðir einstaklingar
 • Hamingjusamir kennarar eru góðir kennarar

Vinnueftirlitið

Fræðsluefni VIRK

 

Tengt efni