is / en / dk

Handleiðsla er aðferð sem hjálpar starfsmönnum að þroskast í starfi og að nýta betur hæfni sína. Með henni er styrkur einstaklingsins leystur úr læðingi svo hann finnur frekar lausnir á þeim viðfangsefnum sem hann er að kljást við. Starfsmanni er hjálpað að átta sig á uppbyggingu vinnustaðarins, markmiðum starfsins og möguleikum sínum í vinnu og á vinnustað.

Í handleiðslu fer hver þátttakandi yfir eigið starf, líðan á vinnustað og aðra þætti sem tengjast starfinu. Allt það sem rætt er í tímum er trúnaðarmál. Hægt er að velja um einstaklingshandleiðslu og hóphandleiðslu.

Ástæður þess að starfsmaður fer í handleiðslu eru meðal annars:

 • að byggja upp og styrkja fagímynd
 • að bæta skipulag til að komast yfir verkefni dagsins og fyrirbyggja streitu
 • að skilja betur eigin viðbrögð og líðan í vinnu
 • að bæta verklag og fagleg vinnubrögð
 • þörf fyrir skýrari markasetningu
 • að glöggva sig á skipuriti stofnunar, valddreifingu og ábyrgð
 • að auka samskiptafærni
 • að fóta sig á nýjum starfsvettvangi
 • fagleg þróun
 • að skilgreina óánægju í starfi
 • að finna nýjar áherslur í starfi

Hóphandleiðsla:

Í hóphandleiðslu eru nokkrir starfsmenn saman og einn til tveir handleiðarar. Hver hópur kemur sér saman um vinnulag og viðmið. Samsetning hópsins getur verið mismunandi. T.d. getur verið um að ræða hóp úr mismunandi fagstéttum sem vinnur saman sem teymi, hóp úr sama fagi á sama vinnustað eða fagmenn frá mismunandi vinnustöðum sem sinna sambærilegum störfum. Hóphandleiðsla getur verið spennandi vettvangur til að efla sig í starfi, vinna að faglegri þróun og tengjast betur vinnufélögunum.

Hvar er hægt að fá handleiðslu?

Handís er félag þeirra er veita faghandleiðslu á Íslandi. Félagar þess koma úr mörgum starfsstéttum, s.s. frá heilbrigðis- félagsmála- og fræðslumálageiranum. Á síðunni má sjá lista yfir alla handleiðara félagsins. 

Á vefsíðu Vinnueftirlitsins er að finna lista yfir viðurkennda þjónustuaðila í vinnuvernd. Sumir þeirra eru með áherslu á andlega og félagslega áhættuþætti á vinnustöðum og hjá einhverjum þeirra er hægt að fá handleiðslu. 

Styrkir vegna handleiðslu

Sjúkrasjóður KÍ styrkir faghandleiðslu hjá viðurkenndum handleiðurum.

 

Tengt efni